Hollnemi Listaháskóla Íslands, Francisco Cuellar, sem útskrifaðist frá skólanum í maí síðastliðnum, með meistaragráðu í hönnun, tók á dögunum þátt í 72. alþjóðlega málþinginu um geimferðir, sem fram fór í Dubai.
Þar var ritgerð hans valin á meðal þriggja bestu á málþingi um örþyngdarafl. Í kjölfarið fékk hann boð um að kynna ritgerðarefnið í Dubai þar sem hans erindi, Color blindness in space, var partur af opinberri dagskrá málþingsins.

francisco_cueller_ishihara.png

 

 

Spurningin sem Francisco setur fram í ritgerðinni er hvort framtíðarkynslóðir mannkynsins úti í geimi muni þróa með sér litblindu. Örþyngdarafl úti í geimi hefur áhrif á sjón mannsins og gerir hana til dæmis óskýra. Hins vegar eru engar rannsóknir sem sýna fram á tengsl örþyngdarafls við litblindu. Samkvæmt Samtökum um vitund litblindu (e. Colour Blind Awareness organization) getur litblinda orðið vegna skemmdar á ákveðnum pörtum augans. Á hinn boginn, í kjölfar ýmissa rannsókna á vegum NASA í Alþjóðlegu Geimstöðinni, hefur verið sett fram sú kenning að vökvaskipti (e. fluid shift) sé ástæða þess að augun fái á sig þrýsting og geti skemmst á geimferðalögum lengri en sex mánuðum. Það er því stefna þessa verkefnis Francisco að raungera tilgátuna og sýna hana á meira gagnvirkan hátt. Þar að auki að finna leiðir til að framkvæma tilraunir í aðstæðum örþyngdarafls og efna til samstarfs með öðrum geimferðastofnunum til að rannsaka þetta efni betur.