Fyrri úthlutun úr Nýsköpunarsjóði Námsmanna 2020 var kynnt á dögunum og hlutu 9 verkefni tengd Listaháskóla Íslands styrk fyrir 19 nemendur. Alls bárust sjóðnum 189 umsóknir fyrir 281 háskólanema en 74 verkefni hlutu styrk fyrir 126 nemendur.

 
Styrkt verkefni nemenda Listaháskóla Íslands eru gríðarlega fjölbreytt og heyra undir þrjár deildir skólans. Eitt verkefni er tengt listkennsludeild, þrjú tónlistardeild og fimm hönnunar- og arkitektúrdeild.
 
Listkennsludeild
Í listkennsludeild fékk verkefnið Margbreytileikinn í okkur: Sjálfsmynd sem hús í þrívíðu formi styrk fyrir tvo nemendur í þrjá mánuði hvor. Nemendurnir sem fá styrkinn eru Halla Birgisdóttir og Harpa Björnsdóttir sem báðar munu ljúka meistaranámi í listkennslufræðum á þessu ári. Ingimar Ólafsson Waage, lektor við deildina er leiðbeinandi í verkefninu. Rannsóknin felur í sér þróun námsefnis og námskeiðs fyrir framhaldsskólanema þar sem þau skoða sjálfsmynd sína. Atriði eins og kynhneigð, menntun, fötlun, samfélagsstaða, litarháttur, fjölskyldugerð og forréttindi kalla fram áleitnar spurningar í sjálfsskoðun ungs fólks en listir geta verið góður hvati til að uppgötva sjálfa sig.
 
 
Tónlistardeild
Verkefnið Listrannsóknir og tónverk um kortlagningu hljóða í Gerðarsafni fékk styrk fyrir einn nemanda í þrjá mánuði, nemandinn sem hlaut styrk er Bergþóra Linda Ægisdóttir, nemandi í söng við tónlistardeild, en Berglind María Tómasdóttir, dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar, er leiðbeinandi verkefnisins. Með verkefninu er ætlunin að gera hljóðheim Gerðarsafns í Kópavogi að rannsóknarefni þar sem hljóðheimurinn er kortlagður nákvæmlega og skrásettur. Hljóðin verða svo geymd í gagnabanka sem verður öllum opinn. Úr þeim gagnabanka verður samið tónverk, og þannig dregin fram í kastljósið hljóð sem við tökum almennt ekki eftir.
 
Verkefnið Tilfinningarleg áhrif tónlistar á heyrnarlausa fékk einnig styrk fyrir einn nemanda í þrjá mánuði, nemandinn er Kurt Uenala meistaranemi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi, en þær Berglind María og Þorbjörg Daphne Hall, dósent og fagstjóra fræða við tónlistardeild, eru leiðbeinendur í verkefninu. Með verkefninu stendur til að rýna í og safna gögnum um hver tilfinningaleg viðbrögð hjá heyrnarlausum eru við tónlist. Ætlunin er að búa til leiðbeiningar til tónskálda um hvernig hægt sé að semja tónlist sem þarf ekki beinlínis að heyra til að njóta.
 
Verkefnið Algrímsgildra  fékk sömuleiðis styrk fyrir einn nemanda í þrjá mánuði, nemandinn er Nökkvi Gíslason meistaranemi í tónsmíðum en leiðbeinandi er Ríkharður H. Friðriksson. Verkefnið gengur út á að þróa forrit sem getur búið til sjálfvirka tónlist á borð við þá tónlist er fellur undir Trapp stefnuna og hefur notið mikilla vinsælda á síðustu árum. Þá verður sett upp vefsíða sem gerir fólki kleift að fá sína eigin trapp tónlist með því að ýta á einn takka. Vefsíðuna má finna á slóðinni https://algorithmictrap.com/ 
 
Hönnunar- og arkitektúrdeild
Verkefnið Brauðmótagerð, vinnsla á brauði sem mót í kermaíkframleiðslu fékk styrk fyrir einn nemanda í þrjá mánuði en nemandinn sem sótti um er Búi Bjarmar Aðalsteinsson, stundarkennari við hönnunar- og arkitektúrdeild, sem stundar nú nám í samfélagsmiðaðri hönnun við hönnunarakademíuna í Eindhoven. Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild er leiðbeinandi í verkefninu Verkefnið miðar að því að þróa brauðmót við vinnu í keramik, en sú aðferð við nýtingu rakadrægra efna er ný og að mestu óþekkt. Í mótagerð með leir eru yfirleitt notuð gipsmót en gipsið hefur ákveðna vankanta þar sem að mótið má ekki vera of flókið eða með of grófa áferð því þá er erfiðara að ná leirnum úr mótinu. Með því að nota brauð til að skera út mót verður hægt að vinna með nýja formfræði, áferðir og möguleg íblöndunarefni í sjálft brauðið sem hefur áhrif á lit og eiginleika leirsins eftir brennslu. 
 
Verkefnið Flokk till you drop fékk styrk fyrir þrjá nemendur í þrjá mánuði fyrir hvern nemanda, nemendurnir sem fá styrkinn eru Berglind Ósk Hlynsdóttir, 2.árs nemi í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, Rebekka Ashley Egilsdóttir, 3.árs nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Melkorka Magnúsdóttir, 1.árs nemi í mannfræði við Háskóla Íslands.
Verkefnið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands, Textílmiðstöðvar Íslands, fatasöfnunar Rauða Krossins og Háskóla Íslands, leiðbeinendur eru Eva María Árnadóttir, aðjúnkt og starfandi fagstjóri við námsbraut í fatahönnun, Guðbjörg Rut Pálmadóttir, flokkunarstjóri hjá fatasöfnun Rauða Krossins, Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Heiti verkefnisins Flokk till you drop vísar til og er ádeila á orðatiltækið Shop till you drop sem flestir þekkja. Verkefnið stuðlar að því að efla vitund um neyslumenningu Íslendinga og beina kastljósinu að því magni fatnaðar og textíls sem gefinn er til Rauða Krossins. Nemendurnir munu skoða hvers konar fatnað fólk er að gefa til fatasöfnunarinnar, og hvernig megi nýta og skapa flíkunum sem best framhaldslíf. Verkefnið felur því allt í senn í sér flokkunarstöð, rannsóknarstöð og listaverkstæði.
 
Verkefnið HÖNNÍN – Nýsköpun í Norðri: Nýting hönnunarhugsunar við greiningu og uppbyggingu innviða og tækifæra í Þingeyjarsýslu út frá markmiðum í loftslagsmálum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu hlaut styrk í 12 mánuði samtals, sem deilist niður á fjóra nemendur. Nemendurnir hafa ekki verið ráðnir í verkefnið. Verkefnið er samstarf á milli Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga og er hluti af verkefninu Nýsköpun í norðri, samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Leiðbeinendur verkefnisins HÖNNÍN eru Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, Anna María Bogadóttir lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, Rannveig Björnsdóttir forseti viðskipta- og raunvísindasviðs við Háskólann á Akureyri og Sveinn Margeirsson verkefnisstjóri Nýsköpun í norðri.
Í verkefninu verður leitast við að nýta aðferðarfræði hönnunar og þekkingu á líftækni í samtali við íbúa Þingeyjarsýslu. Markmiðið með verkefninu er að koma fram með tillögur að uppbyggingu innviða á svæðinu til framtíðar og virkja þau tækifæri sem þar bjóðast. Unnið er út frá skilgreindum markmiðum í loftslagsmálum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Nemendur munu vinna með leiðbeinendum að því að greina tækifæri og innviði í Þingeyjarsýslu út frá niðurstöðum rýnihópa innan sveitarfélaganna á sviðum landnýtingar, mannauðs- og umhverfismála.
Verkefnið skiptist í tvo hluta sem nemendurnir fjórir vinna saman að. Fyrri hlutinn snýr að því að skoða og kortleggja stíga og upplifanir heimamanna og ferðamanna af göngu- og reiðleiðum á svæðinu. Nemendur munu jafnframt kanna leiðir til að vinna með ull sem dren í náttúrustíga. Í síðari hlutanum verða staðbundin matvæli skoðuð, en Matarskemman sem býður upp á aðstöðu til vinnslu kjötafurða, kryddþurrkunar og baksturs verður nýtt sem tilraunaaðstaða fyrir nemendur.  Horft verður til þeirrar framleiðslu og ræktunar sem fyrir er á svæðinu en einnig skoðaðir möguleikar á nýjungum í samhengi við hugmyndavinnu íbúa sem hefur farið fram innan verkefnisins Nýsköpun í norðri frá ágúst 2019.  Nánar má lesa um það verkefni hér: www.thingeyingur.is.
 
Þá fékk verkefnið Trefjaleir styrk fyrir tvo nemendur við hönnunar- og arkitektúrdeild í þrjá mánuði, nemendurnir hafa ekki verið ráðnir. Kristján Leósson verkefnastjóri við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Katrín Ólína Pétursdóttir vöruhönnuður sem hafa umsjón með verkefninu. Verkefnið miðar að því að framleiða vistvæna nytjahluti með því að rannsaka og gera tilraunir með íslenskan sellulósa og blöndun hans við önnur íslensk jarðefni.Verkefnið er samstarf Katrínar Ólínu, vöruhönnuðar, námsbrautar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Efnis,- líf- og orkutæknideildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
 
Að lokum fékk verkefnið Hugmyndavinna og framtíðarsýn fyrir húsakynni Kvennaskólans og Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi styrk fyrir fimm arkitektúrnemendur í einn mánuð en verkefnið er samstarf Listaháskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, nemendur hafa ekki verið ráðnir. Verkefnið er framhald af verkefni sem nemendur unnu með Birtu Fróðadóttur stundarkennara við námsbraut í arkitektúr í námskeiðinu Samtal í vetur. Leiðbeinandi er Karl Friðriksson.
 
Listaháskólinn óskar styrkþegum innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með framþróun þessara fjölbreyttu verkefna og rannsókna.
Við minnum á að seinni frestur til að sækja um styrk úr Nýsköpunarsjóði Námsmanna rennur út 4. maí næstkomandi og hvetjum nemendur Listaháskóla Íslands til að sækja um.
 
*Ljósmyndir sem fylgja fréttinni tengjast verkefnunum.