Listkennsludeild Listaháskóla Íslands býður upp á 16 opin námskeið á vorönn, tilvalin fyrir kennara, listamenn og önnur sem vilja sækja sér símenntun á nýju ári.
 
Sérstaka athygli vekur að tvö námskeið haldin á Akureyri í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri. Þetta eru námskeiðin Aðferðir tónlistar í kennslu- 2. og 3. febrúar, kennari er Gunnar Ben og Leikstjórn með ungu fólki- 9. og 10. febrúar. Kennari er Bjarni Snæbjörnsson.
 
Í námskeiðinu Heimspeki menntunar fá nemendur m.a. þjálfun í notkun heimspekilegrar samræðu við kennslu. Kennarar eru: Ingimar Ólafsson Waage og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir. Námskeiðið hefst 12. janúar.
 
Fab-lab í skólastarfi hefst 13. janúar og er kennt á laugardögum til og með 10. febrúar. Kennari er Soffía Margrét Magnúsdóttir. ATH.- Takmarkaður nemendafjöldi!
 
Aðferðir leiklistar í kennslu hefst 16. janúar. Þetta námskeið er sniðið fyrir grunnskólakennara. Kennari er Ása H. Proppé Ragnarsdóttir. Í námskeiðinu læra nemendur að beita aðferðum leiklistar þegar nálgast á viðfangsefni og fá innsýn í hvernig tengja má þær við allar listgreinar.
 
Rödd- spuni- tjáning hefst 16. janúar og kennari er Þórey Sigþórsdóttir. Námskeiðið er tilvalið fyrir öll sem vilja tileinka sér tækni í raddbeitingu og styrkja sig í framkomu. Fullkomið fyrir kennara enda er röddin eitt mikilvægasta atvinnutækið!
 
Listræn menningarstjórnun hefst 16. janúar og stendur til 13. febrúar. Kennari er Njörður Sigurjónsson, PhD. Í námskeiðinu kynnast nemendur forsendum listastjórnunar sem fags og fræðigreinar og lykilhugtök stjórnunarfræða eru sett í samhengi við áhrif af þekkingarframleiðslu stjórnunariðnaðarins. 
 
From studio to classroom hentar vel fyrir starfandi sjónlistakennara en í námskeiðinu vinna nemendur með ýmis efni og skoða leiðir til nýta þann efnivið til að byggja upp og hvetja barna- og unglingahópa. Kennari er Louise Harris og kennslutímabil er 17. janúar - 14. febrúar.
 
Kennarinn- listamaðurinn er kennt yfir tvö tímabil. Fyrst 6. febrúar - 15. febrúar og aftur 16. mars - 23. mars. Námskeiðið er einstaklingsmiðað þar sem nemendur takast á við sjálfstæð verkefni í myndlist og hönnun með áherslu á rannsóknarferli sem hluta af vinnuferli listamanna. Kennari er Gunndís Ýr Finnbogadóttir.
 
Í námskeiðinu Myndlist fyrir kennara ungra barna kynnast nemendur nokkrum leiðum til þess að vinna á skapandi hátt að myndlistartengdum og þverfaglegum verkefnum með yngri börnum. Kennari er Eygló Harðardóttir og námskeiðið hefst 10. mars.
 
Í námskeiðinu Bókagerð, sem hefst 7. mars, fer fram verkleg kennsla í handgerðu, einföldu bókbandi. Kennari er Gunndís Ýr Finnbogadóttir.
 
Barna og unglingakór hefst 20. mars og stendur til 6.apríl. Það er hin rómaða Þórunn Björnsdóttir sem kennir en Þórunn hefur áratuga reynslu af kórstjórn. Hér gefst einstakt tækifæri til að læra af einum af frumkvöðlum íslensks barnakórastarfs. 
 
Textaverk hefst 10. apríl og stendur til 27. apríl. Námskeiðið er hluti þeim námskeiðum sem Listkennsludeild Listaháskóla Íslands býður í gegnum Opna listaháskólann. Í áfanganum er ætlast til að nemendur fari út fyrir kassann og vinni sjálfstæða hugmynda- og verkefnavinnu og þjálfist í notkun texta í verkum. Kennari er Jóna Hlíf Halldórsdóttir.
 
Textíll í samtímamyndlist hefst 10. apríl og stendur til 28. apríl. Kennari er Hildur Bjarnadóttir. Í námskeiðinu verða nemendur hvattir til að þenja mörk hefðbundinnar textílvinnslu með því að gera margar skissur og tilraunir áður en þeir þróa einhverja þeirra í lokaniðurstöðu.
 
Í námskeiðinu Workshop in Musical Instruments læra nemendur að búa til og skapa tónlist úr hljóðfærum gerðum úr óvenjulegum efnum. Kennslutímabil er 17. apríl - 22. apríl og kennari er Peter Kus.