Markmið Listaháskólans er að

  • vera í forystu um þróun háskólanáms í listum og bjóða framúrskarandi, nemendamiðað nám,
  • styrkja rannsóknarmenningu á fræðasviði lista og eignast stærri hlutdeild í rannsóknarsamfélaginu á Íslandi,
  • fjölga snertiflötum við samfélagið og stuðla að fjölbreyttum miðlunarleiðum listsköpunar og rannsókna,
  • sameina starfsemina undir einu þaki með styrkingu innviða, hugmyndafræðilegum ávinningi og enn sterkara samfélagi.

Hlutverk 

Nám og kennsla
Hlutverk Listaháskólans er að veita nemendum stuðning og skjól til að þroskast sem listamenn og að efla þá sem gagnrýna einstaklinga. Veita rými fyrir skörun listgreina og tengsl sköpunar, færni og fræða. Þróa og endurskoða námsframboð og kennsluaðferðir.

Rannsóknir
Hlutverk Listaháskólans er að efla rannsóknir á fræðasviði lista sem undirstöðu þekkingarsköpunar og hugmyndafræðilegrar endurnýjunnar. Leggja áherslu á rannsóknargildi sköpunar og listrænnar nálgunar. Veita rými fyrir fjölbreyttar rannsóknir þar sem unnið er með margvísleg efni, form og miðla.

Samfélag
Hlutverk Listaháskólans er að vera hreyfiafl, eiga í virku samstarfi út á við og opna dyr sínar fyrir samfélaginu. Veita rými fyrir skynræna þekkingu og tilraunakennt umhverfi.

Stjórnsýsla
Hlutverk Listaháskólans er að skapa umhverfi sem styður við þverfaglegt námssamfélag. Stuðla að lýðræðislegri þátttöku í ákvarðanatöku sem einkennist af virku samtali, virðingu og sveigjanleika.