Ég mundi halda því fram að þakkir séu æðsta form hugsunar, og að þakklæti sé hamingja tvíefld af undrun.” 1

Hugsanir eiga rætur sínar í huga mér og hugur minn er mögulegur í krafti líkama míns – líkama sem samanstendur af samskonar steinefnum og frumefnum og þeim sem byggja plöntur, dýr, náttúruna, borgir og alheiminn.2 Ég er fær um að framleiða því ég er til í þessu tiltekna samhengi tíma, staðar og tengsla við fólk.3 Ég fer að sjá handan efnisleika, hugmynda, nándar, afleiðinga, auðmýktar og ljóma. Við lærum að þekkja þessa eiginleika í gegnum þakklætisástand.

Ég beitti húmanískri nálgun sálfræðimeðferðar sem nefnist „Ótakmarkað jákvætt sjónarhorn“4 við listsköpun – Þú endurtekur það sem skjólstæðingur þinn eða viðfangsefni þitt segir þér og sýnir þér, hvort sem það er gert með eða án orða, áþreifanlega eða óáþreifanlega, efnislega eða óefnislega. Þessi nálgun byggir á raunverulegu trausti á að skjólstæðingur þinn eða viðfangsefni búi yfir getunni til að lækna sig sjálfur/sjálft, en aðeins með því að spegla sig í sjálfu(m) sér. Fyrirstaðan kemur til sögunnar þegar hugur okkur fer að grisja út það sem við berum kennsl á og viðurkennum, á grundvelli meðvitaðra og ómeðvitaðra gildisdóma okkar sjálfra, jafnvel þó skjólstæðingurinn/viðfangsefnið blasi við í sinni sönnu mynd.

Hugsun og efni, hugur og heimur, og meðvitund og viðfangsefni hennar, styðjast hvert við annað svo þau geti birst sem heild, og sem hola. Í því hugarástandi sem nú ríkir er okkur um megn að snerta hið „algjöra“ til að yfirvega, skilja og samþykkja það með fullkomnu réttlæti og grundvallarvirðingu. 

Við erum staðsett í kapítalísku hagkerfi þar sem hugsunin lætur stjórnast af aðskilnaði sem sveiflast á milli þess að gefa og þiggja, kaupa og selja, á milli huglægni og hlutlægni. Hið aðskiljandi hugarástand byggir á samsemdarlögmálum – við trúum á eitthvað vegna þess að við erum tilbúin að samsama okkur með því. Listaverkið mitt er tengt mínu nafni vegna þess hvernig hlutirnir virka einmitt núna, jafnvel þó að hugsanir mínar séu aldrei aðeins mínar eigin. Þakklæti er hæfileikinn til að sjá og kunna að meta annarskonar hagkerfi sem er töfrum líkast5, og viðurkennir þá þakkarskuld sem við stöndum í vegna skilningsgáfu, meðvitundar og tilvistar fyrir tilstilli vitundar sem teygir sig út í alla anga heimssýnar okkar. 

Gáfur eru fólgnar í því að geta tekið vel eftir, þar á meðal því að taka vel eftir hugsuninni, án þess að hugsun og mat á því hvað er hreint, tært og milliliðalaust byrgi sýn.6 Slíkar gáfur gefa okkur kost á frelsi frá ofríki þekkingarinnar. Þar að auki mundi ég vilja nefna meðfæddan hæfileika okkar til þess að upplifa þakklæti á meðan undrun (tvíefld af hamingju) er fordómalaus skynjun og vilji, hrein, tær og milliliðalaus, sem ég tel vera skref barnsins í átt til frelsis.