29. apríl kl. 20:00
Salurinn, tónlistarhús, Kópavogi.

Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Í leikskóla fékk hann áhuga á því að læra á fiðlu og hóf nám við Suzuki skólann í Reykjavík hjá Ásdísi Strauss. Sjö ára gamall byrjaði Hrafnkell svo í trompet námi við Lúðrasveit Vesturbæjar og fór svo að fiðlan var að lúta fyrir trompetinu. Næsta áratug var lúðrasveita starf stór partur af lífi Hrafnkels, en á unglingsárunum byrjaði hann að spila með Lúðrasveit Reykjavíkur.

Hrafnkell færði sig yfir í Tónlistarskóla Reykjavíkur fyrir frekara trompetnám 2007 hjá Eiríki Erni Pálssyni. Dvölin í Tónlistarskóla Reykjavíkur var stutt, því eftir að hafa verið fenginn til láns í Stórsveit FÍH var ekki aftur snúið. Hrafnkell var við nám við tónlistarskóla FÍH frá 2009 - 2011 áfram hjá Eiríki. Samhliða þessu sótti Hrafnkell gítar- og spunatíma hjá Halldóri Bragasyni.
Jafnframt hefðbundnu tónlistarnámi hefur Hrafnkell samið tónlist með Guðlaugi Einarssyni síðan þeir kynntust á listnámsbraut í Borgarholtsskóla fyrst sem Captain Fufanu og síðar Fufanu.
Stefndi Hrafnkell á höfuðstað tekknónlistar í Köln til frekari afreka en örlögin höguðu því að hann hóf nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Atla Ingólfssonar.

Vala - Tónverkið
Tónverkið Vala er innblásið af þremur ólíkum hljóðum. Hægt er að lýsa verkinu sem stækkunargleri inn í þessi þrjú hljóð sem öll hafa sína sérstæðu. Þegar hljóðin eru skoðuð má greina dans undarlegra hljóðrófa, ef að stækkunarglerið er hins vegar fjarlægt hverfur línuleg skipting hljóðana þriggja og þau verða afleiðing af hvort öðru og renna saman í eitt.