Útskriftartónleikar tónsmíðanema
1.maí í Kaldalóni, Hörpu

Útskriftarverk tónsmíðanema við Listaháskóla Íslands verða flutt á þrennum tónleikum í Kaldalóni í Hörpu laugardaginn 1.maí.
Tónskáldin að þessu sinni eru fimm talsins. Þar af eru fjögur þeirra að ljúka bakkalárnámi og eitt þeirra meistaranámi.

Dagskrá //

Kl. 15:00

Elvar Smári Júlíusson, BA tónsmíðar - Nokkur samstörf
Undanfarið misseri hefur Elvar starfað sem upptökustjóri og samstarfsmaður með nokkrum tónlistarmönnum, þeim Katrín Helgu (K.óla), Ísidór og Magnús Jóhann. Verkefnin eru ólík og krefjast ólíkra hlutverka og nálganna. Á þessum viðburði mun Elvar spila lokaútkomu þessa samstarfa og segja stuttlega frá ferlinu.

Ísidór Jökull Bjarnason, BA tónsmíðar - Tónlist úr leiksýningunni Krufning á Sjálfsmorði
Ísidór vinnur lokaverkefni sitt í samstarfi við útskriftarnemendur í sviðslistadeild LHÍ en hann semur tónlist fyrir lokasýningu sviðslistadeildar í ár. Sýningin ber heitir Krufning á Sjálfsmorði og verður frumsýnd 29.maí í Þjóðleikhúsinu. Ísidór mun flytja kafla úr verkinu ásamt brotum úr öðrum verkum sem hann hefur unnið að undanfarin misseri.
---

Kl. 17:00

Iðunn Einarsdóttir, BA tónsmíðar -  Í 8 ljósára fjarlægð
Í tónsmíðanámi sínu við Listaháskóla Íslands hefur Iðunn mikið unnið að samþættingu tónlistar og annarra listgreina, svo sem leiklist, myndlist og dans. Segja má að lokaverk hennar úr náminu sé ákveðin niðurstaða á þessum
tilraunum. Verkið er í átta köflum:
1. Upphaf
2. Intermission 1
3. Draumur vaknar
4. Intermission 2
5. Stjörnusafnarinn
6. Intermission 3
7. Neikvæðar hreyfingar
8. Ef þú vilt gráta

Flytjendur eru:
Brynjar Daðason, Rafgítar
Hólmfríður Hafliðadóttir, Leikari, selló, söngur og ýmis slagverk
Hjalti Nordal, Saxófónn
Iðunn Einars, Fiðla og söngur
Jakob van Oosterhout, Leikari, trompet, söngur og ýmis slagverk
Þórður Hallgrímsson, Trompet og leikari
---

Kl. 20:00

Þórður Hallgrímsson, BA tónsmíðar  - Við bárum stigann
Við bárum stigann var samið veturinn og vorið 2021 og í verkinu er notast við ljóð úr bókinni Kandsime redelit kaasas eftir eistneska ljóðskáldið Hasso Krull. Íslensk þýðing er eftir skáldið Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Verkið var samið fyrir Caput hópinn og hina frábæru söngkonu Tui Hirv.
Ljóðin lýsa eitruðu sambandi tveggja einstaklinga. Sambandið einkennist af miklum sviptingum og skipta ljóðin um karakter á svipstundu. Eina stundina er sambandið brennandi heitt en þá næstu ískalt. Sambandið er í senn hljóðlátt og ærandi hátt. Ljóðin eru ögrandi og jafnvel erótísk á köflum. Þó fyrstu orðin séu bjóðandi þá eima þau bæði af spennu og undirgefni: „Komdu inn. / Komdu og stígðu / ofaná mig.“
Viðhorf til tíma í verkinu er ekki rytmísk heldur er horft á tíma líkt og um rými væri að ræða. Af þessum ástæðum er ekki notast við taktstrik eða takttegundir heldur er tíminn gefinn með tímastimplum sem settir eru fram í jöfnum hlutföllum í raddskránni. Markmiðið með þessu er að veita flytjandanum frelsi til að túlka og tjá tónlistina með músíkölsku innsæi. Aðeins tvö nótnagildi eru gefin: stuttar og langar nótur og er það undir flytjendunum komið að koma þeim frá sér á þeim tíma sem gefinn er. Styrkleikamerkingar eru svo notaðar til að tákna frasamyndun. Tónefnið er tilkomið af útreikningum með spectral aðferðum og er hver tíðni svo námunduð að næsta kvarttóni.
---

Kl.20:45

Arngerður María Árnadóttir, MA tónsmíðar - Brot
Verkið Brot eftir Arngerði flutt af meðlimum Caput hópsins undir stjórn Guðna Franzsonar.

A.T.H. Skráning á viðburðina er nauðsynleg og fer fram á tix.is. Smellið á viðburð hér að neðan fyrir skráningu.

kl. 15:00 Ísidór Jökull Bjarnason og Elvar Smári Júlíusson 

kl. 17:00 Iðunn Einarsdóttir 

kl. 20:00 Þórður Hallgrímsson 

kl. 20:45 Arngerður María Árnadóttir