11. maí
Hallgrímskirkja kl. 17:00
 
Útskriftartónleikar Steinars Loga Helgasonar af kirkjutónlistarbraut Listaháskóla Íslands fara fram miðvikudaginn 11.maí klukkan 17:00 í Hallgrímskirkju. Flutt verða verk eftir Grigny, J.S. Bach, Franck, Messiaen og Jón Nordal. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Steinar Logi stundaði píanónám í Tónmenntaskólanum í Reykjavík og Nýja Tónlistarskólanum hjá Jónasi Sen og í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Önnu Þorgrímsdóttir. Steinar kláraði stúdentspróf úr Menntaskólanum við Hamrahlíð og var einnig í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Vorið 2013 útskrifaðist hann með kirkjuorganistapróf úr Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hóf  nám við Listaháskólann í kirkjutónlist haustið 2013. Steinar Logi hefur hlotið styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Halldór Hansen sjóðnum vegna rannsóknarvinnu undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar á tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar og Jóns Nordal. Í tengslum við þá vinnu hefur hann haldið fyrirlesta á Sumartónleikum í Skálholti og á Hugarflugi, rannsóknarráðstefnu LHÍ. Steinar Logi er stofnandi og stjórnandi Kammerkórs tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og er einn af starfandi organistum í Langholtskirkju fram að vori ásamt því að stjórna Kór Langholtskirkju. Í námi sínu í Listaháskólanum hefur hann numið orgelleik undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar, kórstjórn hjá Magnúsi Ragnarssyni og Herði Áskelssyni, litúrgískan orgelleik hjá Guðnýju Einarsdóttur, söng hjá Laufeyju Helgu Geirsdóttur ásamt því að hafa setið einkatíma í hljómsveitarstjórn hjá Gunnsteini Ólafssyni.
 
Efnisskrá:
úr Hymnes: Veni Creator Spiritus eftir Nicolas de Grigny
                     1. en taille à 5 
                     4. Récit de Cromorne
Tríósónata nr. 1 í Es-dúr, BWV 525 eftir Johann Sebastian Bach
Chorale II í h-moll eftir César Franck
Joie et Clarté des Corps Glorieux eftir Olivier Messiaen
Toccata eftir Jón Nordal