ALDREI ENDIR

 

Útskriftarsýning MA nema í myndlist 2021 frá Listaháskóla Íslands
08.05.–30.05.2021
Sýningarstaður: Nýlistasafnið, Marshallhúsinu
Listamenn: Auður Aðalsteinsdóttir, Brian Wyse, Helen Svava Helgadóttir og Romain Causel.

 
Aldrei endir, útskriftarsýning meistaranema í myndlist frá Listaháskóla Íslands er opin frá og með laugardeginum 8. maí. Á opnunardegi er sýningin opin milli 13-18 en þar fyrir utan er hún opin á hefðbundnum opnunartímum Nýlistasafnsins, miðvikudaga-sunnudaga frá 12-18. Sýningin stendur til 30. maí.
 
Í Nýlistasafninu er hugað vel að sóttvörnum, gestir skulu bera grímu og virða fjarlægðarmörk.
 
 
Ár hvert gefst einstakt tækifæri til að sjá heiminn nýjum augum — í gegnum skynbragð og sjónarhorn þeirra listamanna sem hafa nýlokið meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands. Útskriftarsýningin er margradda og ólgandi, en aldrei eins og sýningin árið áður. Hverju sinni glíma nýir listamenn við rýmið og verkin á sýningunni skapa innbyrðis tengingar, kallast eða rekast á.
Í ár eru það verk þeirra Auðar Aðalsteinsdóttur, Brian Wyse, Helenar Svövu Helgadóttur og Romain Causel sem mæta sýningargestum í Nýlistasafninu.
Á sýninguna sækja listamennirnir þræði frá nýlega yfirstöðnum einkasýningum sínum, velta fram ferli sem þau eru að ganga í gegnum. Aðferðum og efnum sem minna enn á sig, bíða frekari úrvinnslu og vekja upp spurningar. Sem hópur vinna þau öll í gjörólíkar áttir en sameinast í þeirri áleitni, næmni, þrautseigju og umhyggju sem fylgir okkar óvenjulegu tímum. Vangaveltur um hvað er verðmætt, hvað er sérstakt og hverju er ofaukið í skjálfandi heimi.
 
Útskriftarsýningin hreyfist með tímanum og viðfangsefni sýnenda endurspegla umheiminn þá stundina. Þessi viðburður er aldrei endastöð, heldur svipmynd af lengra uppgötvunarferli sem heldur áfram eftir útskrift og hófst jafnvel á undan formlegri menntun sýnenda: Það að vera og verða listamaður.
 
 
Sýningarstjóri er Sunna Ástþórsdóttir.