Listamaðurinn Douglas Gordon er um þessar mundir gestakennari við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Að því tilefni mun hann halda fyrsta erindi vetrarins í fyrirlestrarröðinni Umræðuþræðir. Það er mikill fengur að fá þennan áhugaverða listamann til þess að segja frá því sem hann er að fást við um þessar mundir.
 
Douglas Gordon er heimskunnur listamaður sem öðlaðist alþjóðlega viðurkenningu þegar hann hlaut Turner verðlaunin árið 1996 og var fulltrúi Bretlands á Feneyjatvíæringnum árið eftir. Viðfangsefni hans eru af ýmsum toga en iðulega koma pælingar um tíma og minni við sögu. Hann skírskotar í menningarsöguna og sammannlegt minni og útfærir verk í ýmsa miðla, þótt einkum sé hann þekktur fyrir viðamikil myndbandsverk og -innsetningar.

Umræðuþræðir er samstarfsverkefni Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, Listaháskóla Íslands, og Listasafns Reykjavíkur. Í tengslum við verkefnið hefur allt frá árinu 2012 verið boðið hingað til lands fólki sem nýtur viðurkenningar í hinum alþjóðlega listheimi, ýmist á sviði listsköpunar, fræðastarfa eða sýningarstjórnunar. Lagt hefur verið upp með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður; gestirnir kynnast íslensku listalífi, stunda gestakennslu um leið og þau kynna eigin verk og hugðarefni opinberlega. Fyrirlestrar fara fram á ensku og eru öllum opnir án endurgjalds.

Photo copyright: Marc Lilius.