Selma Guðmundsdóttir, aðjúnkt í tónlistardeild, flytur erindið Tuttugu ár með Ríkharði í Sölvhóli 6. mars kl. 12:30.

Árið 1994 var sett upp í Þjóðleikhúsinu, á vegum Listahátíðar í Reykjavík, stytt útgáfa á Niflungahring Wagners á einu kvöldi. Verkið er í heild fjórar óperur og tekur um 16 klukkustundir í flutningi. Fyrir hönd Listahátíðar fékk Selma Wagnerhátíðina í Bayreuth til samstarfs við uppfærsluna. Verkefnið vakti mikla athygli langt út fyrir landsteinana enda fyrsta sviðsetning á styttum Niflungahring, sem vitað er um. Sérstaka athygli vakti að Wagnerhátíðin í Bayreuth og stjórnandi hennar, Wolfgang Wagner, lögðu uppfærslunni lið en tillagan að henni kom einnig þaðan. Í framhaldi af þessum viðburði var stofnað Wagnerfélag á Íslandi árið 1995. Félagið hefur, undir forystu Selmu, staðið fyrir öflugu kynningarstarfi á Wagner og beitt sér fyrir rannsóknum á mikilvægi íslenskra fornbókmennta fyrir tónskáldið. Niðurstöður rannsókna dr. Árna Björnssonar um þetta efni hafa birst í bókinni Wagner og Völsungar, sem komið hefur út á íslensku, ensku og þýsku.

Selma Guðmundsdóttir hóf píanónám á Ísafirði en stundaði svo nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Að loknu einleikaraprófi nam hún hjá Hans Leygraf, við Mozarteum í Salzburg og Tónlistarháskólann í Hannover. Að því loknu tók við fimm ára framhaldsnám og störf í Stokkhólmi. Selma hefur haldið fjölda einleikstónleika víða um heim og einnig komið fram með þekktum einleikurum eins og Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Gunnari Kvaran, Áshildi Haraldsdóttur, Martial Nardeau og Guðrúnu Birgisdóttur auk þess að leika með Kammersveit Reykjavíkur um árabil. Hún hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Þrándheims. Hún hefur leikið inn á sjö geisladiska og gert fjölmargar upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Hún hefur verið formaður Félags tónlistarmanna, setið í stjórn Listahátíðar og átt sæti í dómnefndum og matsnefndum hér heima og erlendis. Selma er einn af stofnendum Richard Wagner-félagsins á Íslandi og hefur verið formaður þess frá upphafi. Hún hefur einnig setið í stjórn Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga frá því í maí 2014.

Fyrirlesturinn er ókeypis og öllum opinn