Í tilefni af áttræðisafmæli Atla Heimis Sveinssonar, 21. september næstkomandi, verður tónlist þessa áhrifaríka tónskálds í aðalhlutverki í fyrsta hádegisfyrirlestri tónlistardeildar LHÍ haustið 2018.

Sjónum verður beint að framúrstefnutónsmíðum Atla frá frá því í kringum 1960 og til ársins 1973 en frá því ári er Flautukonsert Atla Heimis sem markar nokkuð skýr skil á höfundaferli hans. Þráinn Hjálmarsson, tónskáld, skoðar samband Atla Heimis við evrópska framúrstefnu og innlent tónlistarlíf og Skerpla, nýr tilraunatónlistarhópur tónlistardeildar LHÍ, flytur valda kafla úr „For Boys and Girls“, sem Atli samdi fyrir SÚM-hópinn árið 1967.  Stjórnandi Skerplu er Berglind María Tómasdóttir, dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar við LHÍ.

Föstudagsfyrirlesturinn fer fram í Fræðastofu 1, stofu 633 í Skipholti, föstudaginn 21. september klukkan 12:45 – 13:45. Aðgangur ókeypis og öll innilega velkomin.

Aðrir föstudagsfyrirlestrar tónlistardeildar haustið 2018:

  • Föstudaginn 23. nóvember kl. 12:45 - 13:45: Nýsjálenski tónlistarfræðingurinn Kimberly Cannady fjallar um samhengi og samband íslenskrar tónlistar og þjóðernisvitundar.
  • Föstudaginn 7. desember kl. 12:45 - 13:45: Daníel Bjarnason, tónskáld, fjallar um tónlist sína og tónsmíðaaðferðir, meðal annars um óperu sína Brothers sem var frumsýnd í Musikhuset í Árrósum 2017 og sett upp af Íslensku óperunni á Listahátíð í Reykjavík 2018. 

Allir fyrirlestrarnir fara fram í fræðastofu 1,  stofu 633, Skipholti 31. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

„Kanske munu einhverjir segja að þetta verk mitt sé ekki músik. Mér myndi ekki detta í hug að mótmæla þeirri fullyrðingu, því ég veit ekki hvað músik er, eða hvernig músik á að vera. Þess vegna kompónera ég, það er að segja skapa og leita. Þeir sem vita hvað músik er, hvernig músik á að vera hlusta aðeins á músik með það eitt fyrir augum að fá þar með staðfestingu á eigin skoðunum,  þeir dæma, meta og vega, skilja sauðina frá höfrunum. Þeir eru óhæfir til að upplifa eitthvað óþekkt, auka nýjan þætti í reynslu sína.“

 

Úr forspjalli eftir Atla Heimi Sveinsson að verkinu Fönsun III (Neisti 1. tbl., 1965)

 

 

 

 

 

 

 

 

Yfirlit yfir vðburði tónlistardeildar LHÍ haustið 2018 með fyrirvara um breytingar