Stefan Bojsten prófessor við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi heldur tónleika í sal Norræna hússins  þriðjudaginn 29. mars kl.20. Leikur hann verk eftir Mozart, Schubert og Debussy.

Miðvikudaginn  30. mars heldur Bojsten masterklass fyrir píanónemendur kl.17–19:30 í Sölvhóli. Masterklassinn er opinn öllum áhugasömum.

Stefan Bojsten  hefur um langt skeið verið ástsæll píanóleikari í heimalandi sínu og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín.  Hann hefur gert víðreist bæði sem einleikari og meðleikari með fjölmörgum sinfóníuhljómsveitum og komið fram um allan heim.

Stefan Bojsten er menntaður í Royal College of Music í Stokkhólmi undir leiðsögn Esther Bodin-Karpe. Hann lagði einnig stund á nám í London og New York, þar sem hann sótti meðal annars tíma til þeirra Phyllis Sellick og Arthur Balsam.  Bojsten hefur síðan 1997 starfað sem prófessor við Royal College of Music í Stokkhólmi. Hann er vinsæll fyrirlesari og gestakennari og situr sem dómari í alþjóðlegum píanókeppnum.

Stefan hefur spilað inn á fjölmargar plötur fyrir plötufyrirtæki líkt og: Polar, Caprice, Bis, Naxos, Fermat, Artemis, MAP, recut, Musica Sveciae og Opus 3.