Strengjasveitin TónaList flytur nýfundin æskuverk eftir Jón Nordal

Tvö verk eftir Jón Nordal, sem fagnar níræðis afmæli sínu um þessar mundir, verða á efnisskrá strengjasveitarinnar TónaList í Seltjarnarneskirkju laugardaginn 12 mars kl.17.00.

Verkin, sem um ræðir voru samin í kringum 1943 og voru aðeins einu sinni flutt á tónleikum fyrir u.þ.b. 73 árum. Verkin fundust nýlega og er þá um nokkurs konar endur frumflutning að ræða. Verkin eru bæði byggð á íslenskum þjóðlögum. Sveitin mun einnig flytja tvo þætti úr Serenödu fyrir strengi eftir austurríska tónskáldið Robert Fuchs. Hann var einn vinsælasti tónsmíðakennari í Vín snemma á 20 öldinni, en hélt sig við gamlar hefðir í eigin tónsmíðum . Divertimento eftir Béla Bartók verður einnig flutt, en þótt Barók og Fuchs hafi vrið nánast samtímamenn, þá eru þessi verk afar ólík.

Bjarni Frímann Bjarnason, sem hlaut titilinn “Bjartasta vonin” nú nýlega á Ísl. Tónlistarverðlaununum hefur umritað hina tilkomumiklu Chaconnu eftir Bach fyrir strengjasveit, en verkið er upphaflega samið fyrir einleiksfiðlu. TónaList mun einnig flytja þessa umritun

 

Strengjasveitin TónaList er skipuð nemendum úr Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Stjórnandi sveitarinnar er Guðný Guðmundsdóttir.