Miðvikudaginn 9. nóvember kl. 15 - 17 kemur Tékkneski strengjakvartettinn PiKap og heldur kynningu á nokkrum verkum á efnisskrá sinni í Sölvhóli.

PiKap strengjakvartettinn kemur frá vestur Tékklandi; frá Pilzen og Karlovy Vary (Karlsbad). Kvartettinn hefur komið víða fram, s.s. á tónlistarhátíðum í Frakklandi, Englandi, Þýskalandi, Ítalíu, Króatíu og Tékklandi, en einnig á Íslandi. Þau léku á Tíbrár-tónleikum í Salnum árið 2004, við mjög góðar undirtektir auk þess að leika víða um land og er því tilhlökkunarefni að fá hópinn aftur. Meðlimir kvartettsins eru virk í tónlistarlífinu í Tékklandi þar sem þau spila í Sinfóníuhljómsveitinni í Karlovy Vary og Óperuhljómsveitinni í Pilzen auk þess að vera virk í kammertónlist, stunda kennslu og hafa leikið þjóðlagatónlist frá blautu barnsbeini.

Kynning hópsins á strengjakvartettum í LHÍ byggja á efnisskrá sem kvartettinn leikur á tónleikum í 15:15 tónleikasyrpunni í Norræna húsinu n.k. sunnudag. Strengjakvartett nr. 1 sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir PiKap strengjakvartettinn 2011-2012 og frumfluttu þau verkið í Tékklandi árið 2012. Verkið heyrist nú í fyrsta sinn á Íslandi í upprunalegri mynd. Strengjakvartett nr. 2 eftir hið kunna tékkneska tónskáld Bedrich Smetana og er virkilega gaman að heyra tékkneska flytjendur leika tónlist hans eins og þeim er í blóð borið, af hita og blóðheitri tilfinningu. Strengjakvartett nr. 4 eftir Sylvie Bodorovu (1954) sem stundaði m.a. nám hjá Donatoni á Ítalíu og Ton de Leeuw í Amsterdam eins og sum okkar fremstu tónskálda og glænýr strengjakvartett eftir Jaroslav Krček sem er best þekktur sem stjórnandi hinnar kunnu kammersveitar Musica Bohemica í Prag. Sá kvartett er saminn sérstaklega fyrir PiKap og verður frumfluttur á 15:15 tónleikunum. Einnig verður á efnisskrá 15:15 tónleikanna Divertimento d’Amore eftir Daniel Pitra, 22 ára tékkneskt tónskáld sem hefur m.a. stundað nám við Konservatoríið í Prag. Verkið var samið fyrir Eydísi Franzdóttur, ástaróbóið og PiKap strengjakvartettinn 2012 og flutt það ár bæði í Tékklandi og á tónlistarhátíðinni Zeit für Neue Musik – í Bayreuth í Þýskalandi.