Gagarín heldur fyrsta fyrirlestur vetrarins á SmallTalks, fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 21. september kl.20:00, í Kaldalóni í Hörpu.

Á undanförnum árum hefur fyrirtækið Gagarín haslað sér völl á sviði upplifunarhönnunar og miðlunar á gagnvirku efni fyrir sýningar og söfn. Fyrirtækið starfar í auknum mæli fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja koma upplýsingum á framfæri og skapa áhugaverða upplifun fyrir notendur. Rauði þráðurinn í verkum Gagarín er gagnvirk miðlun sem stuðlar að þátttöku gesta, með það að markmiði að dýpka skilning og skapa eftirminnilega upplifun. 

Við hönnun á gagnvirkni má draga mikinn lærdóm af iðn- og vöruhönnun, arkitektúr og vitsmunavísindum en  mikilvægast er að skoða atriðin út frá manneskjunni og hvernig hún upplifir sýningaratriðið. Einnig leitast Gagarín við að nýta þá staðreynd að manninum er eðlislægt að hreyfa hluti og leika sér.

Fyrirtækið hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir verkefnin sín undanfarið og ber þar hæst hin virtu Red Dot verðlaun fyrir orkusýningu Landsvirkjunnar „Orka til framtíðar“. 

Á fyrirlestrinum mun Gagarín veita innsýn inn í starfsemi fyrirtækisins og heim sýninga- og upplifunarhönnunar.

www.gagarin.is

Um SmallTalks

SmallTalks er fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands, í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hörpu. Markmiðið er að halda uppi líflegri umræðu um það sem helst er að gerast á sviði hönnunar og arkitektúrs, en þar kynna hönnuðir og arkitektar verkefni sín auk þess sem málefni líðandi stundar er varða hönnuði og arkitekta eru tekin fyrir. Frítt er inn á fyrirlestrana og allir velkomnir.