Arnbjörg María Danielsen, listrænn stjórnandi, spjallar um sköpunarferlið að baki Íslendingasögum - sinfónískri sagnaskemmtun í hádegisfyrirlestri tónlistardeildar LHÍ,

Föstudagur 7. desember 2018 frá 12:45 - 13:45

Viðburðurinn fer fram í stofu S304, Skipholti 31.

Umræður leiðir Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefnastjóri tónlistardeildar LHÍ.

Öll hjartanlega velkomin.

Nánar

Arnbjörg María Danielsen hefur um árabil starfað sem listrænn stjórnandi, framleiðandi, leikstjóri og höfundur og komið að margvíslegum sýningum víðs vegar í Evrópu sem eiga það flestar sameiginlegt að unnið er þvert á listgreinar.

Tónlist, myndlist, sviðslistir og bókmenntir renna saman en á meðal sýninga sem Arnbjörg hefur stýrt og komið að má nefna Draumleik í tilefni aldarafmæli Ingmar Bergman, sem unnin var með Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg, Álfahöllina í Þjóðleikhúsinu, UR, óperu Önnu Þorvaldsdóttur, Óþelló í Borgarleikhúsinu í Dresden og sýningar sem hverfast um tónlist Carls Nielsen, Gustaf Mahler og Béla Bartók svo fátt eitt sé nefnt.

Arnbjörg María er með mastersgráðu í óperusöng og tónleikhúsi frá Mozarteum-háskólann í Salzborg og mastersgráðu í list- og menningarstjórnun frá Háskólanum í Zürich í Sviss.

Íslendingasögur - sinfónísk sagnaskemmtun“, nýjasta sýning Arnbjargar Maríu, var sýnd að kvöldi 1. desember 2018 í Eldborg, Hörpu á hundrað ára fullveldisafmæli Íslands en viðburðurinn var einnig sendur út beint á RÚV. 

Í verkinu fléttast saman tal og tónar frá ýmsum tímum en sýningin byggist á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning eftir Lene Juhl og Kasper Stouenborg. 

Verkið er spunnið úr nýlegum hljómsveitarverkum Önnu Þorvaldsdóttur, Báru Gísladóttur og Daníels Bjarnasonar, glænýju sigurlagi og - ljóði Jóhanns G. Jóhannssonar, Landið mitt, tónlist Cell7 við ljóð Kött Grá Pjé, poppslögurum og vinsælum smellum eftir Bubba Morthens, Bach, Þursaflokkinn, Beethoven, Spilverk þjóðanna, Mozart og Vivaldi; ljóðum og textum úr sarpi Lindu Vilhjálmsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Jónasar Hallgrímssonar, William Shakespeare og Eddukvæðum svo eitthvað sé nefnt. 

Flytjendur: Sinfóníuhljómsveit Íslands, Schola Cantorum, Kór Menntaskólans í Hamrahlíð, Ensemble Adapter, leikararnir Kristín Þóra Haraldsdóttir, Nicholas Candy og Orri Huginn Ágústsson, Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran, Varna Nielsen, trommudansari, Vera Panitch, fiðluleikari, Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, Curver Thoroddsen, raftónlist en stjórnandi var Bjarni Frímann Bjarnason.