Algjör spunaveisla verður í tónlistardeild 15.-17. september, þar sem saman koma fríspunalistamenn frá Eistlandi, Skotlandi og Íslandi, ásamt nemendum tónlistardeildar. Hátíðin er hluti af spunanámskeiði NAIP meistaranema (New Audiences & Innovative Practice) og er opið öllum nemendum tónlistardeildar.
 

Á hátíðinni verða flutt spunaverk sem fjölbreytilega skipaðir hópar flytja, algjörlega í opnu formi þar sem helstu rammarnir eru hljóðfæraskipan og tími. Að öðru leyti spunnið á grunni þeirra aðferða sem listamennirnir hafa þróað.

15. sep kl. 21:00 - Mengi (Miðaverð 2000 kr.)

16. sep kl. 17:30 - Sölvhóli (Frjáls aðgangur)

17. sep kl. 13:00 & 16:00 - Seltjarnarneskirkju (Frjáls aðgangur)

Frá Eistlandi koma fram þau Anto Pett píanóleikari og Anne-Liis Poll söngkona. Bæði kenna þau við tónlistarháskólann í Tallinn, þar sem þeirra aðalkennslugrein er frjáls spuni, en í Tallin er hægt að sérhæfa sig í tónlistarspuna bæði á meistara- og doktorsstigi.

Frá Skotlandi kemur Alistair MacDonald sem er raftónlistarmaður, tónskáld og prófessor í tónsmíðum og "Creative and Constextual Studies" við konunglega tónlistarháskólann í Glasgow.

Þessir þrír ofannefndu listamenn verða með námskeið fyrir nemendur tónlistardeildar Listaháskólans dagana 14. - 17. september.

Einnig koma fram Marta Hrafnsdóttir söngkona sem lýkur í haust doktorsgráðu í spuna frá Tallin, en lokatónleikar hennar verða hluti af hátíðinni, Liis Viira hörpuleikari, sem bæði er spunalistamaður og starfar m.a. með Mörtu og leikur með sinfóníuhljómsveitinni í Tallin. Sigurður Halldórsson sellóleikari, Berglind María Tómasdóttir flautuleikari, Úlfar Ingi Haraldsson bassaleikari og Kjartan Valdemarsson píanóleikari koma einnig við sögu, en öll hafa lengi iðkað frjálsan spuna og eru kennarar við Listaháskólann.