Föstudaginn 26. ágúst kl. 13 heldur myndlistarmaðurinn Páll Haukur Björnsson opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Páll Haukur Björnsson (f. 1981) er íslenskur myndlistarmaður sem býr og starfar í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands, Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu frá California Institute of the Arts í Los Angeles árið 2013. Páll hefur sýnt bæði á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Evrópu og eru verk eftir hann í eigu safna og safnara beggja vegna Atlantshafsins.

Páll er einnig hluti af útgáfu samverunni N-o-NS … e; NSI / c :::: a_L sem gefur út ársrit og skipuleggur sýningar og viðburði undir sama heiti í Kaliforníu og víðar.

Páll hefur áhuga á hvernig reynsluheimur manneskjunnar umbreytist og hverfist milli einnar merkingarfræðilegrar myndbirtingar til annarrar og hann fjallar stundum um hvernig það spilar saman með metafórísku táknmáli markaðshyggjunnar.

Í erindi sínu ætlar Páll að fjalla um verk sín og feril út frá hugmyndum sínum um merkingu sem kjölfar handahófskenndrar tilhneiginga innan heims löghlíðinna ólíkinda. Einnig ætlar Páll að skoða hugmyndir sem liggja að baki sýningu hans ´samfleitt sjálf handan árinnar´ sem opnar 27. ágúst í Nýlistasafninu, Völvufelli.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar um Pál Hauk má finna á vefsíðunni: http://pallhaukur.com/

 

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild
Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.