GABRÍELA FRIÐRIKSDÓTTIR 
OPINN FYRIRLESTUR Í MYNDLISTARDEILD

Föstudaginn 15. janúar kl. 13 heldur myndlistarmaðurinn Gabríela Friðriksdóttir opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Gabríela Friðriksdóttir (f.1971) hefur verið virk í sýningarhaldi á alþjóðlegum vettvangi og hefur ferðast víða við úrvinnslu og uppsetningu verka sinna. Hún útskrifaðist frá skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1997 og var gestanemandi við AVU akademíuna í Prag veturinn 1998.

Í erindi sínu mun Gabríela fjallar um myndsköpun sína, aðferðir og vinnuferli. Hún vinnur jöfnum höndum með, teikningar, málverk, skúlptúr, innsetningar og myndbandsverk. Verk Gabríelu eru oft á mörkum dags og draums eða á mörkum hins óhlutbundna og hins hlutbundna og vinnur hún gjarnan útfrá ýmsum andlegum kerfum, fornum og nýjum. Í verkum hennar er samstarf á milli hinna ýmsu listgreina einkennandi og hún vinnur gjarnan stærri verk sín og innsetningar með tónlistarmönnum, dönsurum, kvikmyndagerðamönnum og arkítektum.

Gabríela hefur sýnt verk sín víða um heim og var verk hennar "Versations Tetralógía" framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins árið 2005. Hún hefur m.a. sýnt verk sín í Centre Pompidou, Prospectif Cinema, París; Migros Museum, Zurich; Museum of Contemporary Art, Tokyo; Kunsthaus Graz; La Biennale de Lyon; Schirn Kunsthalle, Frankfurt; Listasafn Íslands og Listasafni Reykjavíkur.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar um Gabríelu má finna á vefsíðunni: http://www.gabriela.is/

 

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

 

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.

Tengiliður: Ásdís Spanó, verkefnastjóri myndlistardeildar, asdisspano [at] lhi.is,  

s. 866 3906 / 520 2419.