Ásthildur Björg Jónsdóttir kynnir tvöfalda doktorsritgerð sína:
 

List sem hvetur til sjálfbærni:

Möguleikar lista í menntun til sjálfbærni.

 
Það sem er óhefðbundið við rannsókn Ásthildar er að auk þess að vinna verkefnið við tvo háskóla uppfyllir það skilyrði tveggja ólíkra doktorsgráða. Annars vegar greinatengdrar doktorsgráðu (Ph.D.) frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hins vegar Doktor of Arts frá myndlistardeild Lapplandsháskóla.
 
Í doktorsrannsókn Ásthildar, eru möguleikar samtímalistar til sjálfbærnimenntunar rannsakaðir og metnir út frá sjónarhorni kennslufræða og listsköpunar.
 
Hugtakið sjálfbærni er umdeilt og í stöðugri mótun. Til eru margar mismunandi skilgreiningar á því.
 
Í þessu verkefni er stuðst við þann skilning að kjarni sjálfbærni felist í jafnvægi á milli 'hins góða lífs' og virðingar fyrir þeim takmörkunum sem náttúran setur.
 
Skilgreiningin á hugtakinu sjálfbærni ræður því hvaða kennslu- og námsaðferðir verða fyrir valinu. Gagnrýnið listrænt grenndarnám er sú aðferð sem Ásthildur aðhyllist.
 
Verkefnið byggir bæði á starfendarannsókn og listrannsókn. Það var þýðingarmikið að vinna með báðar rannsóknaraðferðirnar samhliða. Með því móti tókst að varpa ljósi á niðurstöðurnar, bæði með hefðbundinni skriflegri greiningu og einnig með myndlistarsýningum og eigin listsköpun. 
 
Í upphafi rannsóknarinnar lagði Ásthildur mesta áherslu á eigið starf og samhengi menntunar við líf og reynslu kennaranema.
 
Tvö mikilvæg atriði komu fram á fyrstu stigum rannsóknarinnar, annars vegar mikilvægi þess að leggja áherslu á dyggðir og gildismat og hins vegar mikilvægi þátttöku til að þróa með nemendum getu til aðgerða og að tengja markvisst milli fræða og framkvæmdar með ígrundun. Þessir þættir höfðu mikil áhrif á þróun þeirra áfanga sem liggja til grundvallar rannsókninni.
 
Rannsóknin fór fram á sex ára tímabili í listkennsludeild Listaháskóla Íslands þar sem Ásthildur starfaði sem lektor og fagstjóri.
 
Tveir lykiláfangar voru lagðir til grundvallar starfendarannsókninni, Listir og sjálfbærni og Kennslufræði sjónlista, þ.á.m. var verkefni sem unnið var með kennaranemum og grunnskólanemendum í Grasagarði Reykjavíkur.