Misbrigði, Erindi 2: Eftirmáli

Þann 18. mars síðastliðinn sýndu annars árs nemar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands verk sín á tískusýningu í Hörpu að loknu sjö vikna námskeiði í samstarfi við Fatasöfnun Rauða krossins.

Næstkomandi föstudag, þann 8. apríl, mun annað erindi sýningarinnar líta dagsins ljós og verður þar hægt að skoða flíkurnar í návígi ásamt vinnuferlinu.

Opnun sýningarinnar verður í matsal Listaháskóla Íslands, Þverholti 11, kl: 17:00-20:00 og verða léttar veitingar í boði.

Sýningin verður svo opin yfir helgina eins hér segir:

Laugardaginn 9. apríl kl: 13:00-17:00.
Sunnudaginn 10. apríl kl: 13:00-17:00

 

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

 

Nemendur sem sýna eru:
Bergur Guðnason
Darren Mark
Guðjón Andri
Hanna Margrét
Kristín Karlsdóttir
Magna Rún
María Árnadóttir
María Nielsen
Signý Gunnarsdóttir
Þóra Ásgeirsdóttir

 

Leiðbeinendur: Katrín María Káradóttir, Dainius Bendikas, Hildur Yeoman og Daníel Karl Björnsson.

 

Sýningin er afrakstur átta vikna námskeiðs þar sem nemendur fengu það verkefni að hanna fatalínu úr notuðum fötum í samstarfi við Fatasöfnun Rauða Krossins. Fyrra erindi Misbrigða fór fram í Hörpu 18. mars síðastliðinn, en þá stóðu nemendur fyrir tískusýningu.

Samstarf Listaháskólans og Rauða Krossins hófst þegar nemendur á öðru ári í fatahönnun tóku að sér listræna stjórnun á tískusýningu sem fatasöfnun Rauða Krossins stóð fyrir á nýtniviku í Ráðhúsinu 28. nóvember síðastliðinn. Í kjölfarið var, að frumkvæði Katrínar Káradóttur fagstjóra í fatahönnun við LHÍ, leitað eftir samstarfi við Rauða Krossinn vegna hinnar árlegu annars árs sýningar fatahönnunarnema við Listaháskólann. Úr varð að fatasöfnun Rauða Krossins lagði til föt og efni sem ekki voru hæf til endursölu.

Þessi nýjung við tilhögun annars árs sýningarinnar markar ákveðna stefnubreytingu innan deildarinnar, þar sem ný áhersla á endurnýtingu og sjálfbærni er felld að kennslu í aðferðafræði við hönnunarferli. Námskeiðið, sem hefur verið í þróun innan fatahönnunardeildar LHÍ í meira en tíu ár, var því með nokkuð öðru sniði í þetta sinn en áður hefur verið. Er þetta í takt við þá þróun sem nú á sér stað innan skólans, í þá átt að leggja sífellt meiri áherslu á ábyrga hönnun og leitast við að auka áhuga og meðvitund almennings á henni.

Ástæðurnar fyrir því að föt eru ekki söluhæf geta verið ýmsar, flíkurnar sem nemendur notuðu voru t.d. blettóttar, götóttar eða að öðru leyti úr sér gengnar. Þrátt fyrir slíka galla var í mörgum tilvikum um að ræða vandaðan textíl og dýrmæt efni, t.d. mokkaskinn, leður, ullarefni, hör, bómullarefni og margt fleira. Flíkurnar sem nemendur fengu til að vinna úr voru margar hverjar orðnar nokkurra áratuga gamlar, en engu að síður heillegar, og efnið í góðu standi. Þetta leiðir skýrt í ljós að oft var vandað meira til verka við fata- og efnaframleiðslu á árum áður en nú tíðkast, og föt voru framleidd til að endast eiganda sínum lengi.

Í byrjun fengu nemendur tækifæri til að vinna með efni og flíkur á gínu. Þessi aðferð nýttist mörgum vel til að fá hugmyndir að formum, lögun og efnasamsetningum sem þeim hefðu e.t.v. ekki komið til hugar við hefðbundna skissuvinnu. Við þessar tilraunir var notast við ódýrari og lélegri efni og flíkur frá Rauða Krossinum, sem ekki hefðu nýst í lokaútkomuna. Í lokin á þessu ferli var svokölluð milliyfirferð, þar sem ákvörðun var tekin um stefnu hvers og eins nemanda. Svo tók við skissuvinna, innblásin af þeim tilraunum sem gerðar höfðu vikurnar á undan og hver nemandi hannaði 10 alklæðnaði og kynnti í lokateikningum.

Úr þeim teikningum voru valdir þrír alklæðnaðir frá hverjum nemanda til að fullvinna, en nemendur höfðu í kjölfarið þrjár vikur í sníðavinnu og saumaskap. Útkoma þeirrar vinnu var svo, eins og áður segir kynnt í Hörpu 18. mars síðastliðinn.

Í lok námskeiðs fengu nemendur svo eina viku til að undirbúa sýningu með sýningarstjórunum Hildi Yeoman fatahönnuði og Daníel Björnsson myndlistarmanni. Þar munu þeir miðla vinnuferlinu, vinnuaðferðum, efnvið, ástæðum og ýmsu sem upp kom í ferlinu. Með því er leitast við að veita almenningi dýpri skilning á verkefninu.

Mikilvægi þess að endurnýta, og slæm staða í umhverfismálum eru málefni sem verða okkur æ ljósari, og fatahönnunarnemar hafa ekki farið varhluta af þeirri umræðu. Fataiðnaður eins og hann er í dag er gríðarlega ósjálfbær og í mörgum tilvikum ómannúðlegur. Feiknarleg eftirspurn eftir nýjum stílum og miklu úrvali af ódýrum fötum bitnar á gæðum fatnaðarins og aðbúnaði þeirra sem framleiða hann. Sú staðreynd stjórnast ekki síst af neyslumynstri Vesturlandabúa, og þeirri algengu viðleitni að hampa hraða og magni fremur en gæðum.

Það er tímabært að nútíma neytendur endurhugsi fataneyslu sína. Í því felst að þeir læri að sjá gildið í, og hlúi að þeim dýrmætum sem nú þegar eru til, í stað þess að huga eingöngu að því nýjasta, sem svo sannarlega er ekki alltaf það verðmætasta.