Þórður Magnússon, tónskáld, og Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, ræða nýjan píanókonsert Þórðar við tónsmíðanema Listaháskóla Íslands, föstudaginn 29. jan. kl. 13-14:30. Fyrirlesturinn fer fram í Sölvhóli og eru allir velkomnir.

Víkingur Heiðar Ólafsson þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001 og hefur síðan komið fram með þekktum tónlistarmönnum og  hljómsveitum. Leikur hans hefur víða hlotið umfjöllun og lof: New York Sun hefur  sagt hann „fæddan til að spila á píanó“, Sunday Times hefur kallað hann „rísandi  stjörnupíanista“ og Piano News talað um „ótrúlega hæfileika ... þið verðið að  hlusta á þennan píanista“. 

Veturinn 2015-16 leikur Víkingur píanókonserta eftir Skríabin, Beethoven, Liszt,  Daníel Bjarnason, Brahms, og Tchaikovsky með hljómsveitum á borð við Tampere Philharmonic, Ulster Orchestra (Rafael Payare), Philharmonia 

Orchestra og Dönsku útvarpshljómsveitina (Vladimir Ashkenzy), auk þess að frumflytja píanókonsert Þórðar Magnússonar með Sinfóníuhljómsveit Íslands á Myrkum Músíkdögum í janúar 2016. Í febrúar stýrir hann í fyrsta sinn Vinterfest 

tónlistarhátíðinni í Svíþjóð, en hann tekur við sem listrænn stjórnandi af klarinettuleikaranum Martin Fröst. Þá stýrir hann áfram Reykjavík Midsummer Music tónlistarhátíðinni í Hörpu, en hátíðina stofnaði hann árið 2012.

Víkingur vann að gerð sjónvarpsþáttanna Útúrdúr sem voru á dagskrá RÚV árin 2013-15 og hefur gefið út þrjá geisladiska hjá útgáfufyrirtæki sínu Dirrindí. Í október gefur Deutsche Grammophon út heildarverk Igor Stravinsky en þar er 

m.a. að finna nýjar upptökur með leik Víkings. 

Víkingur stundaði nám hjá Erlu Stefánsdóttur og Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar hjá Jerome Lowenthal og Robert McDonald við Juilliard skólann. Hann hlaut ýmsa styrki á námsárunum, m.a. úr Minningarsjóði um Birgi Einarson. Hann hefur fjórum sinnum verið valinn Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.  

www.vikingurolafsson.com

screen_shot_2016-01-28_at_12.38.54.png

Þórður Magnússon tónskáld er fæddur í Reykjavík árið 1973. Hann lauk prófi í tónsmíðum og tónfræði við framhaldsdeild Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1996 og nam í kjölfarið veturlangt við Conservatoire de Paris sem handhafi verðlauna sem kennd eru við Jean­Pierre Jacquillat. Þórður hefur ennfremur tekið þátt í Young Nordic Music Festival í Helsinki og Kaupmannahöfn auk þess sem hann hefur sótt námskeið og fyrirlestra hjá Philippe Manoury og Magnus Lindberg auk annarra. Eftir heimkomuna til Íslands hefur Þórður öðlast viðurkenningu sem mikilsvirt tónskáld og útsetjari. Frá árinu 2002 hefur hann kennt tónsmíðar, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsögu og kontrapunkt við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Garðabæjar.

Konsert fyrir píanó og hljómsveit er saminn að beiðni Víkings Heiðars Ólafssonar sem hluti af flokki píanókonserta eftir íslensk samtímatónskáld.

Um verk sitt segir höfundurinn:

„Verkið fylgir hefðbundnu klassísku formi píanókonserts og er í þremur köflum þar sem fyrsti kaflinn er í sónötuformi með tvöfaldri framsögu. Því næst hægum kafla og að lokum hröðum Rondo kafla. Verkið byggir að stórum hluta á lag­ línunni Meðan hringinn hönd þín ber sem fengin er að láni af silfurplötum Iðunnar, þar flutt af Jóni Eiríkssyni, 9 ára.

Tónsmíðalega á þetta verk sér svolítið langa sögu. Upphaflega var efniviður þess hugsaður sem kafli í kvartett þar sem honum reyndist svo ofaukið. Þá fékk ég beiðni um að semja píanókonsert fyrir vinstri hönd og hélt ég þá áfram að þróa efniviðinn með hann í huga en það verkefni var síðan lagt til hliðar. Dúkkaði tónsmíðin næst upp í aðdraganda keppni um opnunartónverk Hörpu árið 2011 og efninu þá pakkað í knappt 10 mínútna form sem hljómsveitarverk. Aftur var verkið lagt til hliðar en tekið fram og endanlega klárað í ársbyrjun 2015 og þá sem píanókonsert.“