Málþing með nýdoktorum í listkennslu á Kjarvalsstöðum, fimmtudaginn 22. ágúst kl. 15:00 - 17:00

 
 
Þrír nýbakaðir doktorar á sviði listkennslu kynna rannsóknir sínar og erindi þeirra við samfélagið. 
 
Fyrirlesarar eru Dr. Ásthildur Jónsdóttir, myndlist, Dr. Kristín Valsdóttir, tónlist og Dr. Rannveig Þorkelsdóttir, leiklist
 
Að ráðstefnunni standa fagfélög listgreinakennara, Kennarasamband Íslands, Faghópur um skapandi leikskólastarf, FLÍSS Félag um leiklist í skólastarfi, FÍMK Félag myndlistarkennara á Íslandi, TKI Tónmenntakennarafélag íslands og SLHF Samtök list- og hönnunarkennara á framhaldsstigi. Samstarfsaðili er Listasafn Reykjavíkur.
 
Það er mikill fengur fyrir menntakerfið að nú hafi þrjár öflugar konur bæst í þann fámenna hóp sem útskrifast hefur með doktorspróf í listkennslu. Rannsóknir á þessu sviði eru undirstaða þróunar listgreina í skólakerfinu og eru öflugasta leiðin til að hafa áhrif á áherslur stjórnvalda í menntamálum. Með niðurstöðum rannsókna er sýnt fram á áhrif listgreina og mikilvægi þeirra.
 
Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir heimspekingur mun taka saman niðurstöður málþingsins og stýra umræðum.
 
Að loknum fyrirlestrum og umræðum verður boðið upp á léttar veitingar.
 
 

Dr. Ásthildur Jónsdóttir, myndlist

 
asthildur_jonsdottir.jpg
 

 

Ásthildur Jónsdóttir, doktor í myndlist, heldur erindi á málþinginu. Yfirskriftin er List sem hvetur til sjálfbærni: Möguleikar lista í menntun til sjálfbærni.
 
Í doktorsrannsókn Ásthildar Jónsdóttur, sem hún vann að hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og myndlistardeild Lapplandsháskóla í Finnlandi, eru möguleikar samtímalistar til sjálfbærnimenntunar rannsakaðir og metnir út frá sjónarhorni kennslufræða og listsköpunar.
 
Hugtakið sjálfbærni er umdeilt og í stöðugri mótun. Til eru margar mismunandi skilgreiningar á því. Í þessu verkefni er stuðst við þann skilning að kjarni sjálfbærni felist í jafnvægi á milli 'hins góða lífs' og virðingar fyrir þeim takmörkunum sem náttúran setur. Skilgreiningin á hugtakinu sjálfbærni ræður því hvaða kennslu- og námsaðferðir verða fyrir valinu. Gagnrýnið listrænt grenndarnám er sú aðferð sem Ásthildur aðhyllist. Verkefnið byggir bæði á starfendarannsókn og listrannsókn. Það var þýðingarmikið að vinna með báðar rannsóknaraðferðirnar samhliða. Með því móti tókst að varpa ljósi á niðurstöðurnar, bæði með hefðbundinni skriflegri greiningu og einnig með myndlistarsýningum og eigin listsköpun.
 
Í upphafi rannsóknarinnar lagði Ásthildur mesta áherslu á eigið starf og samhengi menntunar við líf og reynslu kennaranema. Tvö mikilvæg atriði komu fram á fyrstu stigum rannsóknarinnar, annars vegar mikilvægi þess að leggja áherslu á dyggðir og gildismat og hins vegar mikilvægi þátttöku til að þróa með nemendum getu til aðgerða og að tengja markvisst milli fræða og framkvæmdar með ígrundun. Þessir þættir höfðu mikil áhrif á þróun þeirra áfanga sem liggja til grundvallar rannsókninni.
 
Rannsóknin fór fram á sex ára tímabili í listkennsludeild Listaháskóla Íslands þar sem Ásthildur starfar sem lektor og fagstjóri. Tveir lykiláfangar voru lagðir til grundvallar starfendarannsókninni, Listir og sjálfbærni og Kennslufræði sjónlista, þ.ám. var verkefni sem unnið var með kennaranemum og grunnskólanemendum í Grasagarði Reykjavíkur.
 
Fræðilegt framlag rannsóknarinnar á sviði sjálfbærnimenntunar var í formi sjö ritrýndra greina/bókakafla og listrænnar túlkunar á viðfangsefninu sem fólst í þremur myndlistarsýningum, auk ritgerðar, fyrirlestra og námskeiða fyrir listgreinakennara.
 
Það sem er óhefðbundið við rannsókn Ásthildar er að auk þess að vinna verkefnið við tvo háskóla uppfyllir það skilyrði tveggja ólíkra doktorsgráða. Annars vegar greinatengdrar doktorsgráðu (Ph.D.) frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hins vegar Doktor of Arts frá myndlistardeild Lapplandsháskóla.
 

Dr. Kristín Valsdóttir, tónlist
 

kristin_valsdottir.jpg
 

 

Dr. Kristín Valsdóttir doktor flytur erindi sem ber yfirskriftina Að verða listkennari - lærdómsferli listamanna.
 
Rannsóknin fjallar um nám og námsferli þeirra listamanna sem bæta við sig kennaranámi. Vettvangur rannsóknarinnar var annars vegar lífssaga listamannanna, þeirra fyrri reynsla og menntun og hins vegar uppbygging náms við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.
 
Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta nemendum er koma inn á nýjan vettvang og hefja nám í kennslufræði á meistarastigi, oft eftir nokkurra ára feril sem starfandi listamenn. Markmið hennar er að þróa áfram meistaranám fyrir listamenn og koma betur á móts við þarfir þeirra í meistaranáminu, byggt á þeirra fyrri reynslu og menntun.
 
Fræðilegur grunnur byggir á kenningum Bourdieus um praxís, samspil einstaklings og vettvangs tengt auðmagni og gildismati þeirra hópa sem þeir eru þátttakendur í. Kannað er hvað listamenn sem hefja nám í kennslufræðum á meistarastigi takast á við er þeir fara á milli vettvanga; annars vegar út frá lífssögum þeirra og reynslu og þróun sjálfsmyndar þeirra en einnig þátttöku þeirra í námsmenningu í listkennslunáminu, hvernig þeir hafa áhrif á hana og móta.
 
Gildi rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að varpa ljósi á þær ögranir sem listamenn standa frammi fyrir er þeir hefja kennaranám á meistarastigi. Niðurstöður hennar má nýta við þróun og uppbyggingu frekara náms á meistara- og doktorsstigi fyrir listamenn á Íslandi. Niðurstöðurnar geta nýst til að skoða og greina námsmenningu á efri skólastigum og í listkennslu.
 

Dr. Rannveig Þorkelsdóttir, leiklist

 
rannveig_bjork_thorkelsdottir.jpg
 

 

Dr. Rannveig Björk Þorkelsdóttir einblínir á leiklist í sínu erindi sem ber yfirskriftina „Í leiklist þá getur maður verið hver sem er; ef þú vilt vera konungur eða fótboltamaður þá getur þú það“.
 
Viðfangsefni doktorverkefnisins var að varpa ljósi á og skilja leiklistarkennslu í grunnskóla við innleiðingu leiklistar sem fags. Rannsóknarspurning verkefnisins var eftirfarandi: Hvernig er staðið að innleiðingu leiklistar í grunnskólum á Íslandi? Í fyrirlestrinum verður fjallað um innleiðingu leiklistar út frá fjórum sjónarhornum; frá sjónarhorni rannsakandans, kennara, skólastjórnenda og nemenda.
 
Bakgrunnur rannsóknarinnar er sá að árið 2013 kom út ný aðalnámskrágrunnskóla greinarsvið og var leiklist skilgreind sem sérstakt listfag í fyrsta skipti. Í kjölfarið myndaðist töluverð spenna um það hvort skólarnir gætu kennt þetta nýja fag, hvort hæfir kennarar fengust til starfa og hvort leiklistin næði styrkri fótfestu. Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknarhefð og fellur undir etnógrafíska rannsókn á grunni félags- og menningarkenningar. Markmið etnógrafíunnar er að leitast við að skoða og skilja sjónarhorn þeirra sem rannsakaðir eru. Veturinn 2013-2014 heimsótti ég tvo skóla í Reykjavík, Fjallaskóla (5. bekkur) og Brekkuskóla (6. bekkur), og fylgdist þar með tveimur kennurum kenna leiklist.
 
Með menningarlegu portretti, þykkum lýsingum og í gegnum narratívu eru niðurstöðurnar kynntar. Ég leitaði að þemum út frá fjórum mismunandi sjónarhornum í greiningu minni út frá kenningum John Goodlad. Kenningar Stephen Kemmis og Peter Grootenboer „practice architectures“ eru hafðar að leiðarljósi í rannsóknarvinnunni. Ég grandskoðaði menningu skólanna með tilliti til kenninga Stephen Kemmis um arkitektúr og vistfræði starfshátta. Kemmis o.fl. (2014) líkja starfsháttum við skipulagða samsetta pakka af orðatiltækjum, verkferlum og tengingum sem fléttast saman í verknaði þar sem verknaðurinn sjálfur er megintilgangur starfsháttarins sem skapar þeim samstöðu.
 
Einn afrakstur rannsóknarinnar var Vistfræðimódel sem þróað var til að greina og túlka samskipti í kennslu á milli kennara og nemenda á mismunandi stigum námskrárinnar í tengslum við menningu og samfélagið. Með vistfræðimódelinu er mögulegt að bera kennsl á ýmsar útfærslur á þemum með stöðugum endurgjafarlykkjum milli kennslunnar og arkitektúr starfshátta og það sem Elliot Eisner kallar ósýnilega námskrá.
 
Rannsóknin kallar á breytingar í faglegri þróun leiklistarkennarans. Ennfremur kallar rannsóknin á endurskilgreiningu á hvernig hægt er að styðja við starfsþróun leiklistarkennarans og hvernig hægt er að breyta kennsluháttum kennarans, nemendum til góða.