Rannsóknarstofa um listkennslu verður með málstofu á Menntakviku. Viðburðurinn er frír og opinn öllum!

Í málstofunni verður fjallað um ólík verkefni sem áttu það sameiginlegt að í þeim var unnið á skapandi hátt með hugmyndir um manngildi og réttindi einstaklinga. Verkefnin höfðu það öll að markmiði að efla vitund um mannréttindamál og auka skilning á þeim svo að fólk átti sig á því þegar mannréttindi eru brotin. Verkefnin byggðu upp hæfni og kunnáttu sem er nauðsynleg til þess að vernda mannréttindi. Það var gert með því að vinna að því að skapa viðhorf þar sem virðing er borin fyrir mannréttindum þannig að fólk brjóti ekki af ásetningi á réttindum annarra.

Málstofustjóri: Ásthildur B. Jónsdóttir

Listkennsla og mannréttindi
Ásthildur B. Jónsdóttir, lektor við LHÍ og Susan Gollifer, kennari við MVS HÍ
Í mannréttindakennslu er unnið að því að skapa jafna virðingu fyrir öllum mönnum sem felur í sér fræðslu um mismunandi menningu og þátttöku og eflingu minnihlutahópa. Áherslur á mannréttindi og menntun til sjálfbærni hafa skipað sess í námi kennaranema við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Í fyrirlestrinum verður sagt frá áherslum og framkvæmd alþjóðlegs námskeiðs sem haldið var í Listaháskóla Íslands sumarið 2015 fyrir verðandi listkennara. Á námskeiðinu var lögð áhersla á þátttökulist og frumkvæði nemenda þar sem lokaniðurstaða námskeiðsins var í formi þátttökuverka úti í samfélaginu.

Mannréttindaáherslur á Borgarbókasafni Reykjavíkur
Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar Borgarbókasafni Reykjavíkur 
Almenningsbókasöfn eru gátt inn í samfélagið. Allir Reykvíkingar eru í markhópi fjölmenningarlegra verkefna Borgarbókasafns og er áhersla lögð á að tengja fólk gegnum listir og menningu og að gera heimsókn í safnið hluta af daglegu lífi innflytjenda líkt og annarra borgarbúa. Markmið fjölmenningarstarfs safnsins er m.a. að stuðla að menningarnæmi og gagnkvæmri félagslegri aðlögun, skapa vettvang fyrir menningar- og tungumálamiðlun og auka færni innflytjenda í íslensku. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ólík listræn verkefni sem hafa það að markmiði að hlúa að fjölmenningu á Íslandi, svo sem Söguhring kvenna, Café Lingua – lifandi tungumál og menningarmótsaðferðina.

Kraftur náttúrunnar
Ingiríður Harðardóttir, kennari við Vesturbæjarskóla
Fyrirlesturinn fjallar um námskeiðið Kraftur náttúrunnar sem ég skipulagði og kenndi fyrir mentorverkefnið Vinátta sem rekið er af Velferðarsjóði barna á Íslandi. Listaháskóli Íslands er samstarfsaðili Velferðarsjóðs og sér um móttöku og kennslu fyrir mentora og skjólstæðinga þeirra. Í fyrirlestrinum fjallar Ingiríður um þá hugmynda- og kennslufræði sem lá til grundvallar námskeiðinu, svo sem fjölmenningarlegar áherslur í kennslu, menntun til sjálfbærni og valdeflingu í gegnum listsköpun.

Förum út í Ústí
Eva Brá Barkardóttir, kennari Kársnesskóla
Í fyrirlestrinum er fjallað um verkefnið Förum út í Ústí sem var unnið í Ústí nad Labem í Tékklandi með tékkneskum nemendum á aldrinum 9–12 ára. Verkefnið var byggt á hugmyndafræði mannréttindakennslu með áherslu á grenndarkennslu, gagnrýna kennslufræði og listsköpun. Markmið verkefnisins var að stuðla að frjálsri listsköpun nemenda og hjálpa þeim að finna sína rödd. Í verkefninu lærðu þátttakendur að þekkja og virða lífsreynslu annarra og stuðla þannig að framþróun í þágu fjöldans. Förum út í Ústí lagði áherslu á lýðræðislegar aðferðir þar sem nemendur deildu ábyrgð og þeim var treyst til þess að leysa saman verkefni tengd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem þeir gátu tengt úrlausnarefnin við eigið líf og samfélagið sem þeir lifa og hrærast í. Í anda gagnrýnnar kennslufræði íhuguðu þátttakendur félagslega stöðu sína í samfélaginu, og þeir íhuguðu hvernig þeir gætu orðið virkir samfélagsþegnar sem legðu sitt af mörkum til framþróunar í heiminum.