Tími til að segja bless er útskriftaverk Lóu Bjarkar Björnsdóttur nema á Sviðshöfundabraut. Það er kominn tími til þess að segja bless. Við vitum það og þú veist það. En hvernig förum við að því? Kannski getum við komist að því í sameiningu. Við getum allavega talað um það. Í þessu verki langar okkur að skapa vettvang og tíma til þess að hugsa okkur leið út úr þessu sambandi sem við erum föst í. 

Lóa Björk Björnsdóttir er áhugamanneskja um sjálfsbetrun. Hver sýning er viðleitni í átt að takmarki sem er handan seilingar. Henni finnst það fínt. Í draumum hennar eru dýr ekki pínd og drepin til manneldis og plöntur vaxa út um allt. Ef að henni gengur illa í sjálfstæðu sviðslistasenunni eftir útskrift er hún með nokkuð gott uppistand í rassvasanum. Það sem skiptir hana þó mestu máli er að verða betri í klifri og massaðari með hverjum deginum sem líður. 

Frítt er inn á alla viðburði Listaháskólans en opnað verður fyrir miðapantanir mánudaginn 7.maí á tix.is