Hönnunarverðlaun Íslands 2019 verða veitt við hátíðlega athöfn þann 14. nóvember kl. 18:00 í Iðnó. Þann sama dag fer fram málþing sem hefur yfirskrifina HANNAÐ Í HRING í Iðnó milli klukkan 15:00 – 17:00.

Hönnunarverðlaun Íslands 2019

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaununum í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Hönnunarsafn Íslands, Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins.
 
Um verðlaunin segir á heimasíðu Hönnunarverðlaunanna að þau séu „veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum hönnunarmiðstöðvar íslands eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Ný verk eru verk sem lokið hefur verið við á síðustu tveim til þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Við val á verðlaunahafa er haft í huga að verið er að leita að framúrskarandi verki, eða safni verka, sem standa á sem fulltrúi þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. verkið/verkin þurfa að vera einstök, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu og fagmennsku í vinnubrögðum.“
 
Ásamt aðalverðlaunum kvöldsins, Hönnunarverðlaunum Íslands 2019, verður veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2019. Í fyrsta sinn í ár verða veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands. Kynnir verðlaunanna er Greipur Gíslason.
Fimm verkefni eru tilnefnd til verðlaunanna að þessu sinni en það eru Wave úr smiðju Genki Instruments, Heima sem er samstarfsverkefni Búa Bjarmars Aðalsteinssonar og Unicef, True Grit frá Lauf, Listasafnið á Akureyri hannað af Kurt og Pí og loks Endurmörkun þjóðminjasafnsins sem var í höndum jónsson & le‘macks.
 
Dómnefnd Hönnunarverðlaunanna 2019 samanstendur af 6 hönnuðum, arkitektum og öðrum sem tengjast sviðinu. Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og prófessor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands hefur verið skipuð í dómnefnd af Listaháskóla Íslands en auk hennar sitja í dómnefndinni skipuð af Hönnunarmiðstöð þau Guðrún Lilja Gunnarsdóttir formaður dómnefndar, hönnuður og stofnandi Studiobility, Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og einn af eigendum Kolofon , Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður og stofnandi í hönnunarteyminu iiif, stofnandi ad og meðlimur í stjórn LungA skólans, Daniel Golling sýningastjóri hjá sænska arkitektúrsafninu og starfsmaður Arkdes miðstöðvarinnar fyrir hönnun og arkitektúr í Svíþjóð. Edda Björk Ragnarsdóttir, lögfræðingur og viðskiptastjóri á hugverkasviði samtaka iðnaðarins er skipuð af Samtökum iðnaðarins.
 
Varamenn dómnefndar eru Björn Guðbrandsson, prófessor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður og Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður.
 
 

Málþing í tengslum við hönnunarverðlaunin

Málþingið HANNAÐ Í HRING sem fer fram fyrr um daginn í Iðnó fjallar um að skoða hönnun sem tæki til að þróa nýjar leiðir og sjálfbærar lausnir. Haldin verða snörp myndræn erindi þar sem sjálfbærar byggingar, matarhönnun, hönnun velferðarkerfisins, hönnun sjálfbærra efna og skilningur og einföldun flókinna kerfa er möguleg með hönnun, verða til tals.
 
Meðal þeirra sem halda erindi eru Katrín María Káradóttir, fatahönnuður og fagstjóri námsbrautar í fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands, Halldór Eiríksson arkitekt/Tark, Guðberg Björnsson hönnunarstjóri og stofnandi Lauf, Edda Jónsdóttir frá Stafrænni Reykjavík, Kristín María Sigþórsdóttir, vöruhönnuður og Nils Wiberg frá Gagarín.
 
Í panel sitja meðal annars Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Anna María Bogadóttir, arkitekt og lektor í arkitektúr í Listaháskóla Íslands, Andri Snær Magnason rithöfundur og Magnús Þór Torfason, lektor í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum hjá Háskóla Íslands. 


 
Stjórnandi málþingsins er fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir.
 
Málþinginu verður streymt hér fyrir þá sem ekki sjá sér fært að mæta á sjálfan viðburðinn.