Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, meistaranemi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP) við tónlistardeild LHÍ hlýtur í ár viðurkenningu úr styrktarsjóði Önnu Karólínu Nordal. Sjóðurinn er stofnaður af Önnu Karólínu sem fæddist í Vesturheimi árið 1902 og lést árið 1998. Hún bjó alla tíð í Kanada og kom aldrei til Íslands en hafði engu að síður sterkar taugar til landsins og sýndi ættlandi sínu og Íslendingum mikla ræktarsemi eins og sjóðurinn er fagur vitnisburður um.  Anna var alþýðukona og mikill unnandi tónlistar og vildi styrkja ungt tónlistarfólk í námi og hvetja til frekari árangurs. Þetta er í sextánda sinn sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en honum ber að styrkja efnilega tónlistarnema í „söng og fíólínspili“. 

 

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir er fædd árið 1990 og hóf söngnám við Tónlistarskóla Garðarbæjar hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur.  Hún stundaði bakkalárnám í söng við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi hjá Prof. Angelu Nick og við Listaháskóla Íslands hjá Þóru Einarsdóttur og Kristni Sigmundssyni.

 

Heiðdís Hanna hefur vakið athygli fyrir söng sinn en hún hefur reglulega komið fram á tónleikum í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu, hún var meðlimur í kór Íslensku óperunnar í uppfærslunni Evgení Onegin eftir Tchaikovsky og söng hlutverk Zerlinu í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart í ár. Fyrr á árinu kom hún fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar.  Heiðdís hefur haldið einleikstónleika í Vídalínskirkju og í Fríkirkjunni í Reykjavík og kom hún fram á hádegistónleikum á Óperudögum í Kópavogi nú í vor. Heiðdís hlaut einnig viðurkenningu úr styrktarsjóði Halldórs Hansen fyrr á árinu.

 

Viðburður í Salnum