Útskriftarverk mitt frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands er samið fyrir vinkonu mína Lilju Maríu Ásmundsdóttur. Innblásturinn fékk ég frá henni, frá hafinu og úr Sólsetursljóði er Jónas Hallgrímsson þýddi árið 1842.

Þýðing Jónasar er alls 17 erindi og töluvert lengri en frumútgáfa ljóðsins. Úr verki Jónasar tók ég þær myndir og náttúrulýsingar sem mér þóttu fallegastar. Erindin og textabútarnir sem ég notaði er að finna hér að neðan, í þeirri röð sem þau koma fyrir í verkinu mínu.

Um flutning á verkinu sjá auk Lilju Maríu þau Þórunn Harðardóttir á víólu, Sigurður Halldórsson á selló, Hjörtur Páll Eggertsson á selló, Alexandra Kjeld á kontrabassa og Háskólakórinn. Stjórnandi er Gunnsteinn Ólafsson. Kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir.

Hóglega, hæglega.

Vaktir þú fugla,
og fögur blóm vaktir,
söng þér að syngja
og sætan ilm færa.
Hníg nú hóglega,
hægt og blíðlega,
vegþreytir vindsala!
ó, vegstjarna!

Hníg nú hóglega
í hafskautið mjúka,
röðull rósfagur!
og rís að morgni
frelsari, frjóvgari,
fagur guðsdagur!
blessaður, blessandi,
blíður röðull þýður!

Halla þú, röðull!
höfði skínanda
bráhýr, brosfagur
að brjósti Ránar,
sæll og sólbjartur,
sem þá er stefndir
bratta braut
á bogann uppsala.

Og bjarma breið
á brúnir fjalla,
áður ljósan dag
leiðir á himin;
leng þú blessaðan
blíðu roða
uppkomu þinnar
og undirgöngu.

Vekur þú von
og vekur þú bæn,
er þú í ljóma
líður af himni,
aftur í ljóma
upp að renna;
þökk er og lofgjörð
á þinni leið.

Hóglega, hæglega,
á hafsæng þýða,
sólin sæla!
síg þú til viðar.
Nú er um heiðar
himinbrauti
för þín farin
yfir frjóvga jörð.

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir útskrifaðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum jólin 2009. Hálfu ári síðar lauk hún framhaldsprófi á píanó frá Tónlistarskólanum á Egilsstöðum. Kennari hennar var Sunčana Slamnig. Næstu tvö ár dvaldi hún í Noregi, fyrst í tónlistarlýðháskólanum Toneheim folkehøgskole og síðar í Bergen þar sem hún stundaði um hríð einleikaranám við Griegakademíuna. Haustið 2012 flutti hún heim til Reykjavíkur og lagði stund á píanónám hjá Önnu Þorgrímsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík þar til hún hóf nám í tónsmíðum við LHÍ haustið 2013. Kennarar hennar hafa verið Hróðmar I. Sigurbjörnsson, Anna Þorvaldsdóttir, Páll Ragnar Pálsson og Kristín Björk Kristjánsdóttir.

Samfara tónsmíðanáminu hefur Ingibjörg Ýr sungið mikið með kórum og skrifað töluvert af verkum fyrir þá sem og einsöngsverk. Hún hefur jafnframt samið tónlist fyrir leikhús og stuttmyndir og vinnur nú ásamt Ragnheiði Erlu Björnsdóttur að tónlist fyrir lokaverk útskriftarnemenda á samtímadansbraut. Verður það flutt í Borgarleikhúsinu í maí. Einnig má til gamans geta að þann 17. apríl og dagana þar í kring munu á Austurlandi standa yfir tónleikar á verkum þriggja austfirskra tónskálda, Ingibjörgu þar á meðal, sem pöntuð voru og flutt af þeim Svani Vilbergssyni, Erlu Dóru Vogler og Hildi Þórðardóttur.