Músík: hverju breytir hún - og hverju getur hún breytt?
Facebookviðburður

Á hádegislestri þann 9. september fjallar Sigurður Halldórsson tónlistarmaður um þá fjölmörgu möguleika sem í tónlistinni felast til að nýtast samfélaginu til góðs umfram annað tjáningar- og samskiptaform eða aðrar listgreinar, og hvernig starfsvettvangur góðra og vel menntaðra tónlistarmanna á sér nánast engin takmörk. Hann lýsir dæmum úr nokkrum skapandi tónlistarverkefnum sem eiga það sammerkt að taka á fjölmörgum þáttum mannlegrar tilveru.

Tónlistarmenn eru í kjöraðstöðu til að tengja, efla, byggja upp, sætta og jafnvel lækna ásamt því sjálfgefna; að fullnægja andlegum þörfum. En eru þeir að nýta vel hæfni sína og þjálfun til að virkilega hreyfa við hlutum? Eru þeir að sjá tækifærin sem felast í þeim dýrmætu hæfileikum sem þeir búa yfir? Pýramídavæðing iðnbyltingarinnar segir okkur að við eigum að einbeita okkur að einum þætti og láta aðra um hitt. En allt þetta "hitt" sem tónlistin hefur er þó það mikilvægasta, vanmetnasta og var áður en einstaklingshyggja ruddi sér til rúms jafnframt að líkindum sá vaki sem hreyfði frekar við fólki í árþúsundir til að sameinast í listrænni tjáningu. Þar sem hópur verður að einni veru - einu afli þar sem traust ríkir og getur tengt, eflt, byggt upp, sætt og jafnvel læknað.

Sigurður Halldórsson nam sellóleik hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Guildhall School of Music í London hjá Raphael Sommer. Auk þess að stunda nám á selló við einleikaradeild Guildhall School lærði hann einnig söng, kammertónlist og Performance and Communication Skills (PCS) sem tekur á fjölþættum félagslegum þáttum þess að vera starfandi tónlistarmaður í síbreytilegum heimi. Hann lauk námi sumarið 1990. Sigurður hefur síðan starfað sem einleikari, kammertónlistarmaður og kennari og fengist við fjölbreytilega tónlistarstíla allt frá miðöldum til nútímans. Hann starfar m.a. með Caput hópnum, Voces Thules, Symphonia Angelica,  Camerarctica og Skálholtskvartettinum. Hann hefur bæði sem einleikari og með fyrrnefndum hópum komið fram á alþjóðlegum listahátíðum víða um Evrópu, Norður-Ameríku, Kína og Japan, og leikið í ótal upptökum fyrir útvarp, sjónvarp og til útgáfu.

Sigurður hefur flutt stórann hluta tónbókmenntanna fyrir selló og píanó vítt og breitt, bæði á Íslandi, austan hafs og vestan ásamt Daníel Þorsteinssyni píanóleikara, en þeir hafa starfað saman í yfir þrjá áratugi. 

Sigurður kemur víðs vegar fram á vettvangi spunatónlistar, bæði sem flytjandi og kennari. Hann hefur unnið í leikhúsi, m.a. að nokkrum tilraunasýningum í dans- og músikleikhúsi. Hann hefur alla tíð haft mikið frumkvæði að hvers konar verkefnum í menningargeiranum, bæði stórum og smáum. Hann var einn af stofnendum og aðalaðstandenum15:15 tónleikasyrpunnar sem sett var á fót árið 2002.  Sigurður hefur sérhæft sig í flutningi tónlistar fyrri tíma með upprunalegum hljóðfærum. Helstu mentorar og samstarfsmenn á því sviði hafa verið Helga Ingólfsdóttir, Ann Wallström, Bruno Cocset, Peter Spissky, og Jaap Schröder, en með honum og Skálholtskvartettinum og Bachsveitinni í Skálholti hefur hann hljóðritað 12 geisladiska. Sigurður var listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholtskirkju frá 2004 - 2014.  og hann situr í stjórn Nordic Early Music Federation. Sigurður starfar við Listaháskóla Íslands og er mentor og fagstjóri NAIP meistaranáms (New Audiences and Innovative Practice) sem Listaháskólinn stendur að í alþjóðlegu samstarfi.