Landvernd, Listaháskóli Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands bjóða til hugvekju um sóun auðlinda í daglegu lífi.

Viðburðinum er ætlað að sýna hversu mikil not er hægt að hafa af hlutum sem búið er að henda/afskrifa.

Nemendur á 2. ári í fatahönnun við LHÍ sýna afrakstur verkefnisins Misbrigði sem unnið er í samstarfi við fatasöfnun Rauðakross Íslands þar sem rannsakaðar eru leiðir til að skapa nýjan fatnað úr ósöluhæfum flíkum. Hægt verður að skoða ferlið frá hugmynd til lokaútkomu. Þau hafa tekið höndum saman við nemendur á samtímadansbraut við skólann og bjóða þau okkur á áhugaverða endurnýtta sýningu - sýning unnin upp úr sýningu.

Ljótu Kartöflurnar verða á staðnum og kynna hugmyndafræði sína en fyrirtækið nýtir kartöflur sem annars er hent sökum úlitsgalla og gera úr þeim ljúffengar flögur.

Henrý Alexander Henrýsson flytur hugvekju og stýrir umræðu um sóunina í lífi okkar. Einnig verða á staðnum kynningabásar þar sem kynntar verða ýmsar aðferðir til þess að sporna við sóun í daglegu lífi.

Landvernd mun bjóða upp á súpu að loknum uppákomum en munu fulltrúar þeirra rusla í súpuna. Við viljum taka fram að viðburðurinn er barnvænn, við viljum gjarnan heyra hvað framtíðin hefur um umhverfismál að segja. Sem vitundarátak gegn einnota umbúðum biðjum við þátttakendur um að koma með eigin bolla til þess að neyta súpunnar úr.