Einkasýning Einars Lúðvíks Ólafssonar opnar fimmtudaginn 7. nóvember  kl. 17:00 – 19:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Nútímamanneskjan – eða hinn póstmóderníski Prómóþeus

Elstu fornleifar okkar tegundar, homo sapiens, sem fundist hafa eru um 200.000 ára gamlar. Ef við berum saman þá manneskju og þig komumst við að því að ekki er mikill líffræðilegur munur á ykkur. Hinsvegar gæti líf ykkar tveggja varla verið ólíkara enda hefur samfélagið stökkbreyst oft og mörgum sinnum síðan þá.

Nýjust þessara byltinga mætti kalla tölvubyltinguna. Manneskjan hefur alla heimsins þekkingu í vasanum öllum stundum, ef ég þarf að komast að einhverju þarf ég ekki nema að googla það. Líf nútímamanneskjunnar á sér ekki bara stað innan eigin líkama, heldur á hún sér líka líf í sýndarveruleika. Á samfélgagsmiðlum eins og Twitter, Facebook og Instagram sem tengja saman fólk alls staðar að úr heiminum á alls konar vegu.

Í sýningunni tek ég hugtök og hluti úr listasögunni og úr listastefnum, sem spruttu upp sem svar við samfélagsbreytingum í gegnum söguna og nota í eigin verk sem skoða líf nútímamanneskjunnar. Tek hugtök alls staðar frá, hvort sem það er kúbismi eða teiknimyndir og set þær saman í verk. Ég leik mér með samstarf og árekstra þess nútímavædda og hefðbundna, með tilvísanir í hálistina jafnt og lágmenninguna. Hin sífellt óljósari mörk milli manneksjunnar og vörumerkisins, hins hefðbundna lífs og þess stafræna.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist