Einkasýning Diljár Þorvaldsdóttur opnar fimmtudaginn 8. október kl. 17:00 – 18:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

ATH vegna núverandi ástands verður sýningin aðeins aðgengileg almenningi í gegnum beint streymi á vefnum kl. 17:30 sem nálgast má HÉR

HULA

Hula.

Þú ert á sama stað og ég. Á staðnum en samt ekki hér.
Líkamar okkar eru í þessu herbergi en hugur þinn er annars staðar.
Er hann í þessari veröld?
Fangi minninga þinna eða ofskynjana?
Þú sérð hluti sem ég sé ekki. Mig langar að vita hvar þú ert,
en þú getur ekki svarað.

Við erum á sama stað og nú ertu hjá mér.
Ég næ sambandi við þig.
Þú hlærð og ert kátur.
Ég skynja að þú skynjar mig og ég faðma þig.

Hugur þinn annars staðar en hér hjá mér.
Þú sérð ekki í gegnum þokuna,
ég sé ekki í gegnum huluna sem vefur sig um þig.
Ég trúi því að þú vitir af mér.
Ég trúi því að þú gleymir mér aldrei.

Því meira sem tíminn líður,
Því meira er af hulunni og því minna er af þér.

 

Á tímabilinu 1. október - 26. nóvember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist