Nágrannar: Áhrif álfabyggða á umhverfi og menningu

Fimmtudaginn 6. desember klukkan 12:15 heldur Bryndís Björgvinsdóttir fyrirlestur í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands um rannsóknir sínar og nýjustu verkefni.  

Í fyrirlestrinum verður fjallað um bókina Krossgötur: álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi og þá rannsóknarvinnu sem liggur að baki henni. Bókin, sem er nýkomin út, er ljósmynda- og fræðirit þar sem rýnt er í 54 bannhelga staði um allt land. Við öllum þessum stöðum má ekki hrófla og hafa þeir því lítil eða mikil áhrif á umhverfi og landslag; til að mynda hvernig vegir eru lagðir, hvar græn svæði eru í byggð eða hvar hús eru staðsett í lóðum. Um leið varpar verkið ljósi á þann forna átrúnað að land sé heilagt og tilheyri ekki mannfólkinu einu. Svala Ragnarsdóttir heimildaljósmyndari tók myndir af stöðunum. Birna Geirfinnsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson hjá StudioStudio hönnuðu bókina en þau eru bæði kennarar við námsbraut í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Í fyrirlestrinum mun Bryndís – annar höfundur verksins – ræða um samspil hönnunar, ljósmynda og rannsóknar hvað þetta viðfangsefni varðar.
 
Bryndís Björgvinsdóttir er þjóðfræðingur að mennt og starfar sem lektor á fræðasviði við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur rannsakað áhrif álfatrúar á manngert umhverfi í fjögur ár ásamt Svölu Ragnarsdóttir heimildaljósmyndara en hefur auk þess skrifað bækur og fræðigreinar um efnismenningu og þjóðfræði og gefið út bæði barna- og unglingabækur. Bryndís situr í ritstjórn Mænu, tímarits hönnunar- og arkitektúrdeildar.  
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11 og er öllum opinn!