Í fyrstu málstofu tónsmíðanema LHÍ haustið 2018 mun tónskáldið og kontrabassaleikarinn Bára Gísladóttir fjalla um tónlist sína og tónsmíðaaðferðir. 

Bára hefur notið mikillar velgengni á undanförnum árum sem tónskáld; verk hennar hafa verið flutt víða um heim af frábærum tónlistarhópum og í sumar var verk hennar „VAPE“ flutt á opnunartónleikum hinnar heimsþekktu sumartónlistarhátíðar í Darmstadt. 

VAPE verður til umfjöllunar á málstofu tónsmíðanema ásamt öðrum verkum Báru en hún leikur tóndæmi og fjallar um tónlist sína.

Bára Gísladóttir lauk bakkalárprófi frá tónlistardeild LHÍ en þar naut hún leiðsagnar Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Þuríðar Jónsdóttur. Hún stundaði síðar mastersnám í tónsmíðum í Mílanó og í Kaupmannahöfn en þar stundar hún nú framhaldsnám við Konunglegu dönsku tónlistarakademíuna undir leiðsögn Niels Rosing-Schow og Jeppe Just Christensen. Tónlist Báru hefur verið flutt af tónlistarhópum á borð við Ensemble InterContemporain, Esbjerg Ensemble, loadbang, Riot Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Danmerkur, Sinfóníuhljómsveit Helsingjaborgar, Strokkvartettinn Sigga og Nordic Affect. 

Þá hafa verk hennar verið valin á hátíðir á borð við Festival Mixtur, KLANG Festival, ManiFeste, Myrka músíkdaga, Sonic Festival og Darmstädter Ferienkurse.Bára hefur verið fulltrúi Íslands á Alþjóða tónskáldaþinginu, Norrænum músíkdögum og Ung Nordisk Musik. Árið 2018 hlaut Bára Léonie Sonning-hæfileikaverðlaunin fyrir tónsmíðar sínar.

​Þetta er fyrsta málstofa tónsmíðanema LHÍ haustið 2018. Aðrar málstofur verða sem hér segir:

  • Föstudaginn 5. október, kl. 12:45 - 14:30: Miriam Cutler, kvikmyndatónskáld og gestur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF, fjallar um tónlist sína við heimildamyndir.
  • Föstudaginn 12. október kl. 12:45 - 14:30: Tómas Manoury, raftónlistarmaður, tónskáld og blásari, fjallar um tónlist sína og tónsmíðaaðferðir.
  • Föstudaginn 9. nóvember kl. 12:45 - 14:30: Jesper Pedersen, tónskáld og aðjúnkt í tónsmíðum og fræðum við tónlistardeild LHÍ, fjallar um tónlist sína.

Málstofur tónsmíðanema fara fram í stofu 633, Fræðastofu 1, Skipholti 31. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.