Fríða og dýrið / Fegurð mennskunnar og dýrsins

Samvinnuverkefni Mengis og Listaháskóla Íslands en viðburðurinn er haldinn í tengslum við námskeiðið Animal Radio sem nemendur úr öllum deildum Listaháskóla Íslands sækja þessar vikurnar. Viðfangsefni námskeiðsins hverfast í kringum velferð dýra í samtímanum og snerta á hönnun, arkitektúr, dýrasiðfræði, neyslu, matvælum og landbúnaði svo eitthvað sé nefnt en kennarar og fyrirlesarar koma víða að. Í Mengi munu verða haldnir fyrirlestrar og að þeim loknum verður efnt til opinnar samræðu um margvísleg málefni sem tengjast umræðuefni kvöldsins. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Frá örófi alda hafa hugmyndir mannsins um útlit og fegurð samtvinnast hugmyndum hans um útlit dýra. Staðlaðar og samræmdar hugmyndir okkar um hvað fegurð feli í sér hafa mótað hugmyndir okkar um sætleika dýra, hvaða dýr falli að fegurðarviðmiðum okkar og hver ekki og móta birtingarmyndir dýra í skáldskap og listum auk þess sem fegurðarviðmiðin hafa haft áhrif á dýraræktun og kynbætur (svo gripið sé til gildishlaðins orðs). Með nútímatækni er hægt að ganga sífellt lengra þegar kemur að útlitsbreytingum og kynbótum dýra en slíkar ummyndanir og hamskipti kalla óhjákvæmilega á spurningar um dýrasiðfræði sem verða í brennidepli þessarar kvöldstundar.

Fram koma:

-Gréta V. Guðmundsdóttir, hönnuður, sem kynnir rannsóknarverkefni sitt um hestaræktun á Íslandi.
-Jón Hallsson, erfðafræðingur, talar um erfðafræðilegar tilraunir sem lúta að kynbótum.
-Alex Roberts, danshöfundur og dansfræðingur, fjallar um fegurðarviðmið og sætleika dýra í sviðslistum og í fjölmiðlum

Thomas Pausz stjórnar umræðum.

Hefst klukkan 20. Ókeypis aðgangur.