Fimmtudaginn 9. júní kl. 17.00 – 18.00 verður úthlutað úr styrktarsjóði Halldórs Hansen fyrir árið 2016. Afhendingin fer fram við hátíðlega athöfn í Salnum, tónlistarhúsi Kópavogs.

Í ár hljóta þau Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, söngkona, og Steinar Logi Helgason, kirkjutónlistarmaður, verðlaun sjóðsins.

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir hóf söngnám hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Garðabæjar fimmtán ára gömul og lauk þaðan framhaldsprófi vorið 2011. Hún hefur stundað nám á bakkalárstigi við Tónlistarháskólann í Freiburg Þýskalandi síðastliðin þrjú ár hjá Angelu Nick. Meðfram söngnáminu kenndi hún íslensku í Háskólanum í Freiburg. Síðastliðið haust hóf hún nám í Listaháskóla Íslands og lauk bakkalárnámi núna í vor. Síðast liðið sumar kom Heiðdís Hanna fram á tónleikum Pearls of Icelandic Song í Kaldalóni Hörpu. Þess má geta að Heiðdís Hanna var staðgengill Þóru Einarsdóttur í óperunni Don Giovanni sem sett var upp af Íslensku óperunni snemma árs 2016.

Steinar Logi Helgason kláraði stúdentspróf úr Menntaskólanum við Hamrahlíð og var einnig í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Vorið 2013 útskrifaðist hann með kirkjuorganistapróf úr Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hóf  nám við Listaháskólann í kirkjutónlist haustið 2013. Steinar Logi hefur hlotið styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Halldór Hansen sjóðnum vegna rannsóknarvinnu undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar á tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar og Jóns Nordal. Í tengslum við þá vinnu hefur hann haldið fyrirlesta á Sumartónleikum í Skálholti og á Hugarflugi, rannsóknarráðstefnu LHÍ. Steinar Logi er stofnandi og stjórnandi Kammerkórs tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og er einn af starfandi organistum í Langholtskirkju fram að vori ásamt því að stjórna Kór Langholtskirkju.

Styrktarsjóður Halldórs Hansen starfar undir væng Listaháskólans. Meginmarkmið hans er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema, sem hafa lokið fyrsta háskólastigi og hafa að mati sjóðsstjórnar náð framúrskarandi árangri á sínu sviði. Fyrsta verðlaunaveitingin fór fram 2004, og er þetta í ellefta sinn sem veitt eru verðlaun úr sjóðnum.

 

Nánar um sjóðinni: www.lhi.is/halldor-hansen