Myndlistarsýningin Ertu héðan? verður opnuð laugardaginn 9. apríl kl. 15:00 í samkomuhúsi KFUM & K, við Vestmannabraut 5 í Vestmannaeyjum. Kveikjan að sýningunni er ævi og störf Júlíönu Sveinsdóttur myndlistarkonu sem fædd er í Vestmannaeyjum. Sýningin veltir því upp hvernig umhverfið mótar okkur í tíma og rúmi, og miðar að því að fanga persónulegar upplifanir í fjölbreytileika samfélagsins. Júlíana bjó lengst af í Kaupmannahöfn en kom oft til Eyja og málaði. Ertu héðan? er í senn sakleysisleg en áleitin spurning sem getur ýmist aukið á fjarlægð á milli manna eða búið til tengingar, bæði áður sem og í samtímanum.

Hvernig ber að skilgreina hver við erum og hvaðan við komum? Á að horfa til þess hvar við búum, bjuggum eða höfum dvalið lengst? Hafa rætur forfeðra okkar áhrif og hvers vegna leitum við sífellt í uppruna okkar? Á sýningunni er að finna verk fimm myndlistarmanna er tengjast Vestmannaeyjum með ólíkum hætti og eiga það sammerkt að hafa horft um öxl og velt áhrifum uppruna síns fyrir sér í listsköpun sinni. Í verkum Júlíönu má greina þrá eftir heimahögum en Vestmannaeyjar voru oft viðfangsefni málverka hennar. Þegar leið á ferilinn beitti hún þrengra sjónarhorni á landslagið, málaði klettana sem hún þekkti svo vel og fangaði orkuna sem hún fann.

Listamenn sýningarinnar eru: Áslaug Íris Katrínar Friðjónsdóttir (f. 1981), Birgir Andrésson (1955-2007), Jasa Baka (f. 1982), Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) og Melanie Ubaldo (f. 1992). Sýningarstjóri er Vala Pálsdóttir, meistaranemi í sýningargerð við Listaháskóla Íslands og er sýningin hluti af útskriftarverkefni hennar frá Listaháskóla Íslands. 

„Að fá að leiða saman þrjár efnilegar listakonur samtímans til móts við tvo liðna listamenn, sem eru meðal merkustu listamanna er Vestmannaeyjar hafa alið af sér og  varpa í sýningunni upp spurningunni um hvar við eigum heima, með verkum sem spanna næstum 100 ára tímabil, þykir mér verðugt og áhugavert verkefni,“ segir Vala Pálsdóttir sýningarstjóri. „Við erum enn spurð að því hvaðan við erum þrátt fyrir að heimurinn sé orðinn opnari, frjálsari, fjölbreyttari og hraðari. Þá er gleðilegt að fá tækifæri til að sýna verk Júlíönu Sveinsdóttur af innsiglingunni í Vestmannaeyjum frá 1924, sem er nýkomið til Eyja frá Danmörku. Það mætti segja að verkið sé komið heim á nýjan leik þó eflaust hafi það fylgt listamanninum heim til Kaupmannahafnar á sínum tíma.“

Auk verka Júlíönu frá Eyjum verður á sýningunni m.a. að finna teikningar Birgis Andréssonar, sem sýndar voru í Eyjum um miðjan áttunda áratuginn, þar sem Heimaklettur „heimsækir“ New York borg og píramídana í Egyptalandi. Áslaug Íris, Jasa og Melanie, sem allar eru búsettar á Íslandi, hafa vakið athygli fyrir list sína á síðustu misserum. Þær takast með ólíkri nálgun og fjölbreyttum miðlum á við uppruna sinn og finna hugrenningum sínum og tilfinningum farveg í list sinni með blöndu af mýkt og hispursleysi. 

Sýningin byggir að nokkru á lokaritgerð Völu en þar rannsakar hún ævi og störf Júlíönu Sveinsdóttur myndlistarkonu. Júlíana var fædd í Vestmannaeyjum árið 1889 en bjó lengstan aldur í Danmörku þar sem hún vann að myndlist sinni. Taugin til Íslands var römm þrátt fyrir langa búsetu á erlendri grundu en í tengslum við yfirlitssýningu Júlíönu í Listasafni Ríkisins, sem þá var starfrækt í húsnæði Þjóðminjasafns Íslands, árið 1957 talaði hún í fjölmiðlum um að verja fjarveru sína frá landinu

Í ritgerð sinni leggur Vala til að safn um Júlíönu rísi í Eyjum, sem varðveiti listaverk Júlíönu, svo og heimildir um ævi hennar og störf. Jafnframt leggur Vala þar til að safn um Júlíönu verði umgjörð er búi myndlist, frá fyrri tíð til samtímans, samastað og byggi á þeim sterka grunni fyrir íslenska myndlist er Vestmannaeyjar höfðu í árdaga hennar.

„Að heimsækja og upplifa Eyjar og velta því fyrir sér hvar Júlíana málaði setur list hennar í nýtt og annað samhengi en breytir engu um að stærsti hluti ferils Júlíönu átti sér stað utan Íslands. Það er vel við hæfi að minningu hennar sé haldið á lofti í Eyjum þaðan sem hún sótti innblástur og kraft fyrir verkefni sín og gefa þannig næstu kynslóðum myndlistarmanna og myndlistaráhugafólks tækifæri til að upplifa verk hennar í samtali við samtímann,“ segir Vala ennfremur.

Í tengslum við sýninguna bauð Vala Pálsdóttir öllum áhugasömum í gönguferð um Vestmannaeyjar þar sem hún sagði frá Júlíönu Sveinsdóttur og þeim slóðum sem hún málaði og varð fyrir áhrifum á.
Samkomuhús KFUM & K stendur við Vestmannabraut 5 en þar hélt Júlíana Sveinsdóttir fyrstu einkasýningu sína árið 1926.

vala_palsdottir-7.jpg