Meistaranám í listkennslu / Kennsla - miðlun - verkefnastjórn

Námið miðar að því að þjálfa listafólk
til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að
miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi, og leiða listverkefni bæði
innan skólakerfisins og utan þess. Listkennslunámið fjölbreytt nám sem
byggist á námskeiðum í valinni listgrein, kennslu-, uppeldis- og
sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og
miðlun listgreinar á vettvangi.

Áhersla er lögð á að nemendur öðlist
skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi.
Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá námskrám grunn- og
framhaldsskóla og valið námsgögn, námsaðferðir og matsaðferðir við hæfi.
Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur
hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um listnám og
námsframboð í samfélaginu.

Í listkennsludeild er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að fræðast um og tileinka sér nýjar aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.

Helstu áherslur

  • Afbragðsmenntun fyrir verðandi listgreinakennara þar sem tekið er mið af forsendum og vinnubrögðum listgreinanna sjálfra.
  • Að mæta brýnni þörf fyrir öfluga og vel menntaða listgreinakennara á öllum skólastigum.
  • Þróun og hönnun nýrra kennsluhátta.
  • Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, jafnrétti og sköpun.
  • Jafnrétti til náms og að skapa beri öllum nemendum námsumhverfi og verkefni við hæfi, óháð bakgrunni, áhugasviði eða lífsskoðunum.

Þrjár námsleiðir

Í listkennsludeild eru þrjár námsleiðir sem allar gefa rétt til að sækja um kennsluréttindi á grunn- og framhaldsstigi.

  • Tveggja ára, 120 eininga meistaranám í listkennslu sem lýkur með M.Art.Ed- eða MA-gráðu.
  • Eins árs, 60 eininga diplomanám fyrir fólk með meistaragráðu í sinni listgrein.
  • Viðbótarnám til mastersgráðu fyrir þá sem þegar hafa lokið 60 eininga kennsluréttindum.

Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa, geta nemendur sótt um starfsréttindi (leyfisbréf) sem listgreinakennarar á grunn- og framhaldsskólastigi. Að námi loknu eiga nemendur að hafa þekkingu og reynslu til að geta tekið að sér listkennslu fyrir alla aldurshópa ásamt því að leiða listviðburði, þróunar- og listsköpunarverkefni innan skóla og fyrirtækja.

Skipulag

Námið er 120 einingar eða fjögurra anna fullt staðnám. Nemendur geta
tekið námið á lengri tíma en þó ekki lengur en átta önnum. Kennsla er
öll staðbundin.

Skipulag námsins miðar að því að þjálfa leiðtoga í listgreinakennslu þar
sem listafólk úr ýmsum listgreinum vinnur saman og samhliða að
kennslufræðilegum úrlausnarefnum.

Áhersla er lögð á efla persónulega færni
nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg
markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og
miðlunarhæfni.

Þó hver nemandi einbeiti sér að sinni
sérgrein á sér stað stöðugt samtal milli listgreinanna, sem opnar dyr
fyrir samvinnu þeirra á milli og þar með fyrir nýjum möguleikum í
listkennslu

Lokaverkefni

Lokaverkefni eru 10–30 einingar og geta verið í formi fræðilegrar ritgerðar, nýs násmefnis, skipulagningar listviðburðar, eigin listaverks eða listsköpunar þar sem aðferðum listrannsókna eða annarra rannsóknaraðferða er beitt. Verkefnin tengjast þó öll kennslu og miðlun á einhvern hátt. Mat á lokaverkefna er í höndum sérfróðs utanaðkomandi prófdómara, 20- 30 eininga verkefni fara í meistaravörn. Áhersla er lögð á sjálfstæð fagleg vinnubrögð, skapandi nálgun, gagnrýna hugsun, ígrundun á eigin frammistöðu og mótun eigin starfskenningar.

Það er markmið deildarinnar að tengja vinnu nemenda við verkefni utan skólans. Sem dæmi um slíkt hafa útskriftarverkefni verið unnin í samstarfi við Orkuveituna, Listasafn Íslands, Hlutverkasetur, menningarmiðstöðina Hafnarborg, o.fl. Einnig er deildin í samstarfi við hátíðir á vegum Reykjavíkurborgar, Vetrarhátíð og Barnamenningarhátíð og hefur komið að verkefnum þar með ýmsu móti.

Nemendur kynna lokaverkefni sín á málstofum sem eru opnar öllum nemendum og almenningi. Málstofurnar eru sérstaklega auglýstar á meðal fagfélaga listkennara og listamanna.

Hæfniviðmið

Við lok náms í listkennsludeild getur nemandi:

  • beitt kenningum, hugmyndafræði, hugtökum og aðferðum listkennslufræða í ræðu og riti
  • unnið kennslu- og verkefnaáætlanir í samræmi við aðstæður og gildandi menntastefnu og rökstutt þær á fræðilegum grunni
  • yfirfært listræna fagþekkingu sína og sett hana í kennslufræðilegt samhengi og beitt henni á vettvangi
  • tekist faglega á við helstu álitamál er upp koma við undirbúning og framkvæmd kennslu
  • vísað til helstu rannsóknaraðferða og rannsókna á sviði listkennslu
  • sýnt persónulega færni við sköpun, þróun og nýtingu hugmynda í listkennslu og miðlun
  • ígrundað og metið eign frammistöðu á faglegum grunni
  • beitt þeirri tækni og verkþekkingu sem kennsla í faginu krefst
  • aflað, greint og metið gögn í rannsóknar- og listsköpunarferli
  • skrásett; niðurstöður, verkefni eða viðburð á viðeigandi hátt
  • unnið markvisst og skipulega í hóp að kennslutengdum verkefnum
  • miðlað færni sinni, hugmyndum og kunnáttu í listum til margs konar hópa og við ólíkar aðstæður
  • miðlað niðurstöðum fræðiverkefna og / eða rannókna innan fræðasamfélagisns og til almennings 
  • haft frumkvæði að verkefnum á sviði listmiðlunar og kennslu, stýrt þeim og axlað ábyrgð á vinnu einstaklinga og hópa
  • beitt þeim vinnubrögðum og námstækni sem frekara nám á rannsóknartengdu meistara- og doktorsstigi í listkennslu krefst.

Kennslan

Kennsla fer fram á íslensku nema um erlenda gestakennara sé að ræða. Námsefni er ýmist á íslensku eða á
ensku. Kennt er í LHÍ að Laugarnesvegi 91.  Kennt er
kl. 9.20 til kl. 12.30 og/eða frá 13.00 - 17:00. Einstaka valnámskeið eru kennd á laugardögum og sunnudögum.

Hæg er að skoða kennsluskipulag hér fyrir neðan.