Í tónlistardeild er boðið sérhæft tónlistarnám í hljóðfæraleik og einsöng til BMus gráðu og almennt tónlistarnám til BA gráðu, þar sem nemendur geta valið um að sérhæfa sig í tónsmíðum fyrir ýmsa miðla, skapandi tónlistarmiðlun, söng- og hljóðfærakennaranám eða kirkjutónlist. Um þriggja ára nám er að ræða til 180 eininga. Einnig er boðið upp á MA nám í tónsmíðum og meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP). Námstími er tvö ár, til 120 eininga og lýkur með MA gráðu. Ennfremur býður tónlistardeildin upp á diplómanám í hljóðfæraleik og einsöng til 60 eininga sem er sérstaklega ætlað hæfileikaríkum nemendum sem enn stunda almennt nám á framhaldsskólastigi, en standast kröfur skólans um kunnáttu og færni í tónlist.

Markmið

Tónlistardeild Listaháskólans er æðsta tónmenntastofnun landsins og vinnur samkvæmt viðmiðum um æðri menntun og prófgráður. Höfuðáhersla tónlistardeildar er að innsæi og forvitni er drifkraftur sköpunar. Deildin hefur sérstöðu í framsæknu námi sem byggir á hefð, sögu, þekkingu og tækni. Markmið deildarinnar er að stuðla að þroska og efla nemendur til sjálfstæðis með sterka vitund fyrir nýsköpun, samfélagi og samstarfi.
Hlutverk tónlistardeildar er að mennta tónlistarmenn og undirbúa þá fyrir störf í tónlist á breiðum grundvelli. Markmiðið er að þeir tileinki sér sjálfstæð vinnubrögð, auki við þekkingu sína og færni og rækti sjálfa sig sem sjálfstæða listamenn.

Námið skal standast alþjóðlegar kröfur og taka mið af fjölbreyttum verkefnum tónlistarmanna í tónlistarflutningi, nýsköpun og við kennslu. Útskrifaðir nemendur tónlistardeildar eiga að vera afl sem auðgar samfélagið.

Kennslan

Námið er í stórum dráttum þrískipt þar sem hluti námsins samanstendur af sérhæfingu nemandans sem getur verið hljóðfæraleikur, söngur, tónsmíðar, söng- og hljóðfærakennsla, kirkjutónlist eða skapandi tónlistarmiðlun. Annar hluti er sameiginlegur kjarni fræðigreina og þriðji hlutinn er val úr fræðigreinum, tæknigreinum eða fögum annarra deilda.

Skólaárinu er skipt í tvö 15 vikna misseri, sem hvort um sig deilist í smærri tímabil. Einka- og hóptímar hljóðfæra og tónsmíða ganga yfir allt skólaárið.
Samspil í mismunandi stórum hópum er ríkur þáttur í starfi deildarinnar. Auk þess að taka þátt í skipulögðum samspilshópum deildarinnar, eru nemendur hvattir til að vinna sjálfstætt í smærri og stærri hópum, jafnvel með öðrum listamönnum.