Markmið Sviðslistadeildar er að veita nemendum yfirgripsmikla þekkingu og þjálfun í sviðslistum. Stefnan er ekki aðeins að veita góðan tæknilegan grunn, heldur einnig að auka víðsýni nemenda og þeir kynnist í verki helstu möguleikum í sínu fagi, nýsköpun og skörun við aðrar greinar. 


Í sviðslistadeild er boðið upp á nám  þremur brautum: leikarabraut, sviðshöfundabraut og samtímadansbraut. Námið er 180 einingar og lýkur með BA gráðu í sviðslistum.

Manifestó leiklistardeildar

  • Við erum samfélag sjálfstætt skapandi listamanna
  • Viðmið okkar er heimurinn
  • Við erum framsækin, forvitin og höfum frumkvæði
  • Við lítum á leiklist sem hugarfar ekki stofnun
  • Við lítum á tækni sem verkfæri en ekki takmark í sjálfri sér
  • Við notum söguna sem stökkpall inn í framtíðina
  • Við sækjum fordómalaust efnivið í aðrar greinar listar og vísinda.

Kennslu umhverfi og -skipulag

Nám í sviðslistadeild er mjög krefjandi, dagarnir eru langir og gert er ráð fyrir að nemendur vinni heimaverkefni á milli tíma.  Kennslan fer fram í leiklistar og dansstúdíóum, leikhúsum, tónlistarstofum og hefðbundum kennslustofum. Stuðst er við einkaleiðsögn og hópleiðsögn í verklegum tímum og fyrirlestra, málstofur, verklegar kynningar og umræður í fræðum.
Dagleg kennsla fer fram kl. 08:30 – 17:00.  Frá 8:30 – 12:30 sækja nemendur fræðitíma og tæknitíma í einka og/eða hópkennslu.  Frá 13:00 – 17:00 er unnið í skapandi vinnustofum. Hvert misseri eru 15 vikur í kennslu auk tveggja verkefnavikna.

Hver önn byrjar á tveggja vikna valnámskeiðum þvert á brautir deildarinnar eða deildir skólans og endar hver önn á verkefna og prófaviku þar sem nemendur skila greinagerðum og verkefnum, taka próf og sýna afrakstur vinnustofa. Kennslunni er skipt niður í mislangar lotur innan stærri námskeiða í tækni og skapandi fögum, lotur geta verið frá einni uppí 10 vikur og fræðinámskeið geta verið frá fjórum vikum uppí 15 vikur. Í upphafi hvers námskeiðs/lota liggur fyrir lýsing, kennslu-áætlun og -fyrirkomulag og námsmat. Á miðju misseri er verkefnavika, en þá liggur hefðbundin kennsla niðri og nemendur hafa tækifæri til sjálfstæðrar vinnu og til þess að vinna verkefni fyrir einstaka námskeið.
Skapandi námskeiðum lýkur annað hvort með opnum tímum eða opinberum kynningum undir hatti Nemendaleikhúss.

Mætingareglur

Listaháskólinn gerir kröfu um fulla mætingu nemenda í alla kennslu. Mætingar eru skráðar af kennara og gilda veikindi sem fjarvist. Nemendur þurfa að skrá veikindi og fjarvistir til þjónustufulltrúa eða beint til kennara.  Nemandi þarf að ná 80% mætingu til að standast námskeið. Í sviðslistadeild er kennslustofum læst fimm mínútum eftir að kennsla hefst í verklegum námskeiðum og kemst nemandi ekki inn í kennslustund eftir það.

Skilareglur

Verkefnum skal skilað á settum skiladögum. Sé verkefni skilað eftir að skilafrestur rennur út er dregið niður um 0,5 fyrir hvern dag fyrstu tvo dagana og einn heilan fyrir 3. og 4. dag. Eftir það er ekki tekið við verkefnum.

Nemendaleikhús

Nemendaleikhús Sviðslistadeildar heldur utan um stefnumót nemenda við  áhorfendur en leikhúsið er vettvangur fyrir þá breiðu starfsemi sem deildin stendur fyrir. Leikhúsið er gátt inn í vinnustofur nemenda í skapandi og túlkandi fögum en þar fara fram kynningar á sviðsverkum nemenda úr völdum áföngum og lokaverkefni leikara, sviðshöfunda og dansara.

Leikarabraut

Nám á leikarabraut er krefjandi nám sem kallar á mikla viðveru, nánd og ástundun. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemanda sem og hæfni til að vinna í hóp. Miklu máli skiptir að nemandi geri  sér grein fyrir eigin ábyrgð á framförum sínum í fagmennsku. Þar skipta sköpum, stundvísi, reglusemi, frumkvæði og virðing fyrir fólki og umhverfi. Námið byggist upp á stórum samsettum námskeiðum í tækni og leiktúlkun auk fræðikennslu og valnámskeiða. Hver dagur hefst á upphitun í tæknitímum; hreyfingu og raddþjálfun en eftir hádegi taka við námskeið í leiktúlkun.

Uppbygging námsins

Á fyrsta ári fær nemandinn góðan grunn í leiktúlkun, sem byggir á arfleið Konstantins Stanislavskis. Þá fær hann einnig kennslu í tækni, hreyfingu og rödd. Á öðru ári er farið dýpra í túlkun og tækni, mismunandi aðferðafræði fær sömuleiðis aukið vægi. Á þriðja ári á nemandinn að vera betur í stakk búinn að vinna með þau verkfæri, sem honum hafa áskotnast í náminu. Þar eru lengri námskeið, sem enda með stefnumóti við áhorfendur og lokasýningu undir hatti Nemendaleikhúss. Fræðikennsla fer mestmegnis fram fyrstu tvö árin en valnámskeið með nemendum annarra brauta og deilda Listaháskólans skipa sinn sess, öll árin. Miðað er við að nemendur á leikarabraut fari einu sinni í styttri námsdvöl í samstarfsskóla deildarinnar á Norðurlöndum og Eystralandslöndunum.

Sviðshöfundabraut

Námið er krefjandi og krefst sjálfstæðis í vinnubrögðum og samvinnu innan hópsins. Nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði, nálgast viðfangsefni sín með opnum hug, af forvitni og með virðingu fyrir náunganum. Ætlast er til þess að nemendur séu reglusamir, stundvísir og komi undirbúnir til leiks.
Námið byggist upp af vinnustofu- og fræðinámskeiðum. Vinnustofunámskeiðin eru fjölbreytt en öll reyna þau á sköpunarkrafta nemandans, aðferðafræði og sjálfstæðrar úrvinnslu. Fræðinámskeiðin snúa að eðli, sögu og mörkum sviðslista. Nemendur halda ferlimöppu sem skilað er einu sinni á önn. 

Uppbygging námsins

Á fyrsta ári er megináhersla lögð á að byggja upp fræðilegan og aðferðafræðilegan grunn þar sem unnið er með form, hefðir og aðferðir á greinandi og gagnrýninn hátt. Á öðru og þriðja ári eykst áhersla á skapandi vinnu nemenda út frá þeim kenningum og aðferðum sem kenndar hafa verið á fyrsta ári.  Nemendur þróa sína eigin listrænu sýn og nálgun við miðilinn í gegnum vinnu við sviðsetningar af ýmsum toga. Valnámskeið innan brautar og/eða með nemendum annarra brauta og deilda Listaháskólans skipa sinn sess, öll árin. Á vorönn annars árs og haustönn þriðja árs stendur nemendum til boða að sækja starfsnám eða skiptinám.

Samtímadansbraut

Námið er krefjandi líkamlega sem og andlega og krefst mikillar viðveru, sjálfstæðis í vinnubrögðum, og samvinnu innan hópsins. Nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði, nálgast viðfangsefni sín með opnum hug af forvitni og með virðingu fyrir náunganum.  Ætlast er til þess að nemendur séu reglusamir, stundvísir og komi undirbúnir til leiks. Námið byggist upp á stórum samsettum námskeiðum í tækni og skapandi ferli.  Hvert námskeið í tækni saman stendur af samtímadansi, ballet, pílates og jóga sem iðkað er alla morgna vikunnar.  Skapandi ferli skiptist í fjölbreytt námskeið og vinnustofur sem reyna á sköpunarkraft nemandans og eru þau námskeið kennd eftir hádegi hvern dag.  Samhliða þessum námskeiðum eru skylduáfangar í fræðum, raddþjálfun og kór.

Uppbygging námsins

Á fyrsta ári er lögð áhersla á að nemandinn tileinki sér rétta líkamsstöðu og efli líkamsvitund sína, sé meðvitaður um eigin líkama og hlúi rétt að honum hvað varðar næringu og hvíld.  Í skapandi námskeiðum er nemandinn kynntur fyrir ólíkum aðferðum sem eiga að auka vitund hans um hreyfimöguleika líkamans og aðferðir sem ýta undir sköpunarkraft hans. Á öðru ári er haldið áfram að dýpka tæknilega færni dansarans og lögð áhersla í skapandi námskeiðum að tengja samtímadansinn við hugmyndafræði annarra listgreina. Lögð er áhersla á að nemendur vinni að frekari samþættingu fræða, tækni og listrænnar vinnu. Á þriðja ári er lögð áhersla á sjálfstæði og úrvinnslu.  Valnámskeið með nemendum annarra brauta og deilda Listaháskólans skipa sinn sess, öll árin. Nemendur fara á haustmisseri þriðja árs í skiptinám eða starfsnám sem styður við þróun nemandans á eigin áhugasviði.