1. gr.

Nafn sjóðsins er Styrktarsjóður Halldórs Hansen. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Meginmarkmið sjóðsins eru eftirfarandi:

  • Að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands.
  • Að veita árlega styrk í nafni Halldórs Hansen til eins af tónlistarnemum Listaháskóla Íslands sem náð hefur framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar.

3. gr.

Stofnfé sjóðsins kemur úr dánarbúi Halldórs Hansen. Fjárhæð stofnfjár miðast við andvirði fasteignar Halldórs Hansen og annarra tilgreindra eigna sem samkvæmt erfðaskrá hans skulu renna til sjóðsins. Helmingur (50%) af andvirði þeirra eigna sem sjóðnum hlotnast samkvæmt erfðaskrá  skal mynda höfuðstól sjóðsins og skal sú fjárhæð haldast óskert í honum. 

Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á vörslu eigna sjóðsins en henni er þó heimilt að semja við viðurkennda fjármálastofnun, um að annast fjárvörslu og ávöxtun sjóðsins. Eigi má selja eða veðsetja fasteignir, aðrar en þær sem hér hafa verið tilgreindar, sem kunna að vera í eigu sjóðsins, nema að fengnu samþykki dómsmálaráðherra, að undangenginni umsögn ríkisendurskoðunar.

4. gr.

Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum áskotnast.

Sjóðurinn veitir viðtöku hvers  konar gjöfum og framlögum er einstaklingar, fyrirtæki og félög leggja fram. Berist gjafafé til sjóðsins skal það fé leggjast við stofnfé og haldast óskert. Nöfn þeirra sem styrkja sjóðinn skulu færð í sérstaka nafnaskrá í vörslu stjórnar.

5. gr.

Stjórn sjóðsins skipa þrír menn. Rektor Listaháskóla Íslands skal vera formaður stjórnar. Hinir tveir skulu skipaðir af stjórn Listaháskóla Íslands til þriggja ára í senn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnarmenn skulu ekki hljóta þóknun fyrir starfa sinn. Stjórn sjóðsins skal tilkynna sjóðaskrá dómsmálaráðuneytisins um það hverjir skipi stjórn sjóðsins hverju sinni.

Við ákvarðarnir innan sjóðsins, þ.á.m. um úthlutun, ræður einfaldur meirihluti stjórnarmanna. Fundargerðir sjóðsstjórnar og allar ákvarðarnir hennar skulu skráðar í sérstaka gerðarbók sem varðveita skal í samræmi við reglur um varðveislu opinberraskjala. Verði stjórnarmaður vanhæfur samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar, skal hann víkja sæti úr stjórn, meðan fjallað er um þann umsækjanda um styrk er olli vanhæfi hans.

6. gr.

Stjórn sjóðsins getur leitað eftir tilnefningum meðal kennara og stjórnenda skólans um væntanlegan styrkþega eða auglýst eftir umsóknum um styrk á þeim vettvangi sem nemendur fá upplýsingar hverju sinni. Stjórnin setur nánari reglur um auglýsingar og styrkveitingar í starfsreglum sínum.

7. gr.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Sjóðsstjórn skal semja reikninga fyrir 1. júní ár hvert og skulu þeir endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem stjórnin kveður til.

        Stjórn sjóðsins skal eigi síðar en 30. júní ár hvert senda ríkisendurskoðun reikning sjóðsins fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því ári.

8. gr.

Stjórn
sjóðsins getur með einróma samþykki sínu breytt ákvæðum skipulagsskrár
þessarar, öðrum en 1. og 2. gr. Breytingar skulu hljóta staðfestingar dómsmálaráðherra.

Með sömu skilmálum er heimilt að leggja sjóð þennan niður og skal
þá eignum hans ráðstafað á þann hátt sem að mati stjórnar þjónar best tilgangi hans.

9. gr.

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari í samræmi við lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Þannig samþykkt á stofnfundi sjóðsins hinn 11. desember 2002

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988 með breytingu á 3. gr. staðfest af Sýslumanninum á Sauðárkróki 16. júní 2011.