Við Hönnunar- og arkitektúrdeild eru fjórar námsbrautir á BA stigi og ein námsbraut á MA stigi. BA námsbrautir eru í  arkitektúr, grafískri hönnun, fatahönnun og vöruhönnun. Námi lýkur með BA gráðu og er námstími þrjú ár eða 180 ECTS einingar. MA nám í hönnun lýkur með MA gráðu og er námstími tvö ár eða 120 ECTS einingar.

Stefna hönnunar- og arkitektúrdeildar er að: 

  • Hvetja til meðvitaðrar afstöðu til lífsgæða með vandaðri og ábyrgri hönnun.
  • Upphefja skilning og þekkingu á hönnun með vel skilgreindri og upplýstri hugmyndafræði.
  • Hvetja til umburðarlyndis og víðsýni í hönnun sem byggir á sjálfstæðum og frumlegum vinnubrögðum.
  • Setja alla hönnun í greinargott og skilmerkilegt samhengi við mikilvægustu aðstæður hverju sinni.
  • Greina og skilja aðstæður sem hvetja til frjórrar hugsunar og upphefja frumleika, kjark, ímyndunarafl og sjálfstæða hugsun.
  • Að stefna til framtíðar.

Einkunnarorðin eru: Skilningur, þekking, færni, sköpun, frumleiki, áræði, útgeislun, innsæi og persónuleg sýn. 

Markmið:

Námið miðast við að nemendur geti tekist á við fjölbreytt viðfangsefni á skapandi hátt. Þeir leita sér þekkingar á hinum ólíku sviðum innan greinarinnar og tileinka sér mismunandi aðferðir við úrlausnir á verkefnum sínum.
Hönnunar- og arkitektúrdeild miðar sig við sambærilegar deildir í viðurkenndum háskólum erlendis. Um leið og deildin tekur mið af alþjóðlegum kröfum sækir hún innblástur í menningu þjóðarinnar.

Kennslan:

BA

Kennsla á 1. ári beinist að því að skerpa sköpunargáfu nemandans og þroska skipulagshæfileika hans. Nemendur takast á við röð verkefna í vinnustofum, sem hafa það að markmiði að víkka skilning þeirra á tveimur megin sjónarhornum hönnunar, sem eru tækniþekking annarsvegar og hugmyndafræði hinsvegar.

Í kennslu á 2. ári er miðað við að nemandinn hafi getu til að skilgreina og setja fram skoðanir sínar hratt og vel, og að hann hafi tileinkað sér þann hugsunarhátt hönnuðarins að hann eigi sífellt að leita nýrra svara við grundvallarspurningum og taka engum niðurstöðum sem sjálfgefnum. Verkefnin á öðru og þriðja ári eru flest afmörkuð og sérstaklega skilgreind til þess að nemendur geti beitt sértækum aðferðum við úrlausn þeirra. Náminu lýkur með ritgerð og lokaverkefnum, sem sýnd eru á opinberri sýningu skólans.

Námið í deildinni er í grundvallaratriðum tvískipt, 50% er verktengt starf í vinnustofum og 50% formleg kennsla. Vinnustofan er miðpunktur starfseminnar. Hver nemandi deildarinnar fær úthlutað eigin vinnuaðstöðu og er ætlast til að nemendur stundi vinnu sína þar. Vinna í vinnustofum fer fram frá kl. 13.00-17.00 eftir hádegi. Fyrir hádegi eru fræði- og tæknitímar.

Kennarar í vinnustofum hitta nemendur að jafnaði alla virka daga í vinnustofum og fara yfir starf dagsins. Þarfir námskeiðsins ráða síðan um hvernig unnið er í vinnustofunni, í hópum eða sjálfstætt og best er fyrir kennara að gera nemendum strax grein fyrir kennslufyrirkomulagi námskeiðsins og bóka með þeim mikilvægustu fundi og einkaviðræður.

Efniskostnaður:

Nemendur verða að gera ráð fyrir efnis- og bókakostnaði.

Stefna deildarinnar við mat á vinnu nemenda:

Í 24. grein í reglum Listaháskólans er fjallað um mat kennara og prófdómara á námi. Þar segir til um hvernig skuli gefa einkunnir. Stefna deildarinnar á að vera lögð til grundvallar þegar kennari gefur einkunn í hönnunar og arkitektúrdeild.

Bent er sérstaklega á aðra málsgrein
24. greinar um skyldur kennara við námsmat. Þar segir fyrst: „Kennarar standa fyrir námsmati og eru ábyrgir fyrir því,...“. Þar kemur skýrt fram að kennarar eru ábyrgir fyrir námsmati á þeim námskeiðum sem þeir stýra.

Síðar í málsgreininni segir: „Um samsetningu námsmats skal vera samráð á milli deildarforseta og hlutaðeigandi kennara ...“. Þar segja reglur fyrir um að grundvöllur námsmatsins skuli vera ákveðinn í samráði við deildarforseta, sem stýrir akademískri stefnu deildarinnar. Ennfremur er deildinni og kennurum skylt að gera nemendum grein fyrir á hvaða grundvelli námsmatið er framkvæmt. Það er stjórn deildarinnar mikilvægt að kennarar gangist undir það að framfylgja akademískri stefnu þegar þeir taka að sér kennslu. Eingöngu á þeim grundvelli eru kennarar fengnir til að starfa innan deildarinnar.

Í deildinni er gengist undir þá vinnureglu að enginn einn kennari gefi einkunnir í vinnustofukúrsum, heldur annarsvegar ráðfæri sig við fagstjóra hverrar brautar og deildarforseta, sem taki þannig að sér prófgæslu með kennaranum, eða að sett sé á laggirnar hópur prófdómara, til dæmis þegar margir kennarar koma saman að einu námskeiði. Alltaf þarf að gera nemendum grein fyrir á hvaða grundvelli eigi að hafa námsmat í námskeiði áður en námskeiðið hefst. Þessa er yfirleitt getið í kennsluskránni, þar sem stutt lýsing er gerð á námskeiðinu, og kennarar eiga að geta þess nánar í námskeiðslýsingu þegar hún er kynnt nemendum í upphafi námskeiðs.

Nemandi þarf að hafa lokið við 180 einingar til að ljúka BA gráðu við deildina. Skiptingin á einingum er þannig:

  • 108 etcs í vinnustofu
  • 54 etcs í fræði
  • 18 etcs í tækni