Rannsóknir og samstarf

Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands tekur virkan þátt í
innlendu og alþjóðlegu samstarfi. Deildin hefur gert tvíhliða samning
við 47 háskóla í Evrópu á vegum Erasmus/Sókrates menntaáætlunarinnar auk
þess að eiga samskipti við listaháskóla vestan hafs í gegnum
styrktarkerfi Fulbright. Innan Nordplus er hönnunar og arkitektúrdeild
þátttakandi í CIRRUS, samstarfsneti 21 hönnunarháskóla á Norðurlöndunum
og í Eystrasaltsríkjunum. Jafnframt er deildin virkur þátttakandi í EAAE
(European Association of Architecture - samstarfsnet um 150 evrópskra
arkitektaskóla), Cumulus samstarfsnet yfir 100 hönnunarháskóla víðsvegar
um heiminn og  Nordic Academy of Architecture (NordArk), samstarfsnet
16 arktitektaháskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.
Samstarfið byggir á kennara- og nemendaskiptum auk annarra
samvinnuverkefna. Þá hefur hönnunar- og arkitektúrdeild stofnað til
fjölda samstarfsverkefna við aðrar háskóla og listastofnanir hér á
landi.

  • Íslenskuþorpið
    Íslenskuþorpið
    er samstarfsverkefni HÍ, LHÍ, Háskóla Suður-Danmerkur og ICT (Swedish
    Interactive Institute). Íslenskuþorpið er nýsköpunarverkefni um nýja
    kennsluhætti fyrir málnema í íslensku sem öðru máli. Í þorpinu fá
    nemarnir þjálfun í að nota íslensku við daglegar aðstæður. Hannað var
    kennsluefni, umhverfi, viðmót, mörkun, heildarútlit, upplifun og
    aðstæður til þess að nemarnir geti lært með því að tala við öruggar
    aðstæður og jákvætt hugarfar. Í þorpinu taka þjónustustofnanir og
    fyrirtæki virkan þátt í kennslu og skapa þannig smækkaða mynd af
    bæjarlífi. Námsefnið, til nota innan og utan kennslustofunnar, er enn í
    þróun, sem og kennsluhættir. Hluti af verkefninu er gagnasöfnun sem
    nýtist til þróunar og með tímanum verður þorpið að vettvangi sem nýtist
    fólki utan háskólans sem vill læra íslensku og ferðamönnum sem eru
    áhugasamir um íslenska tungu.
  • Stefnumót við bændur
    Stefnumót
    hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands með það að
    markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki þar sem hönnun og
    rekjanleiki eru höfð að leiðarljósi. Nýnæmi verkefnisins felst í því að
    tefla saman einni elstu starfsstétt landsins, bændum, og einni yngstu
    starfstétt landsins, vöruhönnuðum. Verkefnið er samstarfsverkefni
    hönnunarnema Listaháskólans og bænda í heimaframleiðslu, í nánu
    samstarfi við Matís og fjölmargra sérfræðinga og ráðgjafa í
    matvælaframleiðslu. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og
    Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
  • Íslensk sjónabók
    Íslensk
    sjónabók er samansafn munsturteikninga byggða á handritum sem notuð
    voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Verkefnið var
    unnið af nemendum og kennurum á námsbraut í grafískri hönnun.
    Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og
    hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gáfu út Íslenska
    sjónabók vorið 2009.
  • Mæna
    Mæna er ársrit um
    grafíska hönnun á Íslandi sem námsbraut í grafískri hönnun, hönnunar-og
    arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gefur út í samstarfi við
    prentsmiðjuna Odda hf. og fjölda myndhöfunda, textahöfunda, þýðenda og
    annarra velunnara. Tímaritið kemur út einu sinni á ári og er gefið út á
    Hönnunarmars.
  • Reykjavíkurgötur
    Reykjavíkurgötur
    er samstarfsverkefni um greiningu og rannsókn almenningsrýma og
    götu-umhverfis í Reykjavík unnin af nemendum og kennurum á námsbraut í
    arkitektúr. Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gefur
    árlega út bók um götu sem tekin er fyrir í göturannsóknarverkefnum
    skólans.
  • Seyðisfjörður
    The Roots of Nordic
    Creativity, Masterclass.  Samstarfsverkefni KHIO - Oslo National Academy
    of the Arts og Listaháskóla Íslands fyrir meistaranema í hönnun í Bláu
    verksmiðjunni á Seyðisfirði. Nemendur frá Noregi, Danmörku, Eistlandi,
    Finnlandi/Kína unnu að byggingu Svitahofs. Hönnun sett í samhengi við
    Shamanisma.
  • Nordic Virtual Worlds
    Námsbraut í
    fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ er þáttakandi í Norrænu
    rannsóknarverkefni með það að markmiði að rannsaka hvernig lítil og
    meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér sýndarveruleika í starfsemi sinni.
    Verkefnið er á vegum Stockholm School of Economics og er styrkt af NICE
    (Nordic Innovation Fund).
  • Samningur um samstarf vegna námskeiðs í myndlýsingum – Vatnsdæla á refli
    Listaháskóli Íslands (LHÍ)  og Jóhanna E. Pálmadóttir ,  f.h. Textílseturs Íslands:
    Nemendur
    á öðru ári í námsbraut í grafískri hönnun við hönnunar- og
    arkitektúrdeild LHÍ unnu að verkefni þar sem viðfangsefnið er að
    myndlýsa Vantsdælusögu fyrir refilsaum.
  • Staðbundin framleiðsla
    Nemendur
    á námsbraut í vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild vinna
    þróunarvinnu í samstarfi við valin fyrirtæki, þar sem
    framleiðsluaðferðum, framleiðslugetu, framleiðsluefnum,
    framleiðslumöguleikum o.s.frv. eru gerð ítarleg skil. Lögð er áhersla á
    að vinna út frá þeim möguleikum sem til staðar eru og skapa nýjum vörum
    sérstöðu með því að upprunatengja vöruna.
  • Staðbundin þróun matvæla
    Í
    samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörður, Ríki Vatnajökuls,
    Rannsóknarsetur HÍ á Höfn í Hornafirði, Skinney Þinganes o.fl.  unnu
    nemendur 3ja árs allra námsbrauta í hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ að
    þróun staðbundinna matvæla á Höfn í Hornafirði.
  • Samstarf við Icelandair
    Samstarfsverkefni
    Listaháskóla Íslands og Icelandair að hönnun móttökusvæðis á
    Keflavíkurflugvelli. Nemendur í vöruhönnun við hönnunar- og
    arkitektúrdeild LHÍ vinna að verkefni þar sem viðfangsefnið er
    endurhönnun (upplifunarhönnun) á  söluskrifstofu og móttöku í
    höfuðstöðvum Icelandair á Reykjavíkurflugvelli með upplifun
    viðskiptavina og starfsfólks í fyrirrúmi.
  • Sýningarstjórnun
    Samstarfsverkefni
    hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, Hönnunarsafn
    Íslands og Þjóðminjasafn Íslands um sýningargerð, sýningarhönnun og
    sýningarstjórnun.