Thelma Kristín Stefánsdóttir er textíllistakona og meistaranemi í listkennsludeild. Hún kynntist textílum ung en það voru mamma hennar og amma sem opnuðu fyrir henni undraheim textílsins.
 
„Minn sterkasti bakgrunnur er í textíl. Ég kynntist textílum snemma á lífsleiðinni en mamma mín og amma kynntu mig fyrir þeim með sínum leiðum þegar ég var ung, þær unnu báðar mikið með textíla og mér fannst mjög gaman að fylgjast með þeim vinna, þá sérstaklega mömmu sem var með saumastofu í kjallaranum heima“ segir Thelma Kristín en hún valdi alltaf að vera í myndmennt í grunnskóla en gerði þó ennþá meira af slíku heima hjá sér.
 
 
mynd_8_ofnir_steinar.jpg

Steinvölurnar í læknum, Myndvefnaður, 2021

 
„Heima var ég alltaf hvött til þess að gera það sem mér þótti skemmtilegt og verða góð í því. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík þegar grunnskóla lauk og þar var mikill heimalærdómur en ég hef aldrei verið mikið gefin fyrir slíkt svo ég sótti alltaf meira og meira í teikningu og fikraði mig áfram með vatnsliti. Ég fór á einhver vatnslitanámskeið í Myndlistaskólanum og þótti þau ótrúlega skemmtileg. Síðan fór ég í sagnfræði í Háskóla Íslands en entist ekki lengi þar. Ætli mig hafi ekki bara klæjað soldið í puttana, þá vantaði einhverja útrás. Ég ákvað að fara þaðan yfir í textíl-deildina í Myndlistaskólanum þar sem fingurnir fengu svo sannarlega að spreyta sig. Þar kynntist ég mörgum og spennandi aðferðum en prjón og vefnaður talaði hvað mest til mín.“
 
 
mynd_1_utskriftarhopurinn.jpg

Hópurinn sem útskrifaðist af textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík, vorið 2022

 

Thelma Kristín sótti um í aðfararnámi í listkennsludeild en aðfararnámið er fyrir þau sem hafa lokið a.m.k. 120 einingum á bakkalárstigi í listgrein.
„Ég kom beint inn á listkennsludeildina úr textílnáminu í Myndlistaskólanum. Mig langar sérstaklega til þess að hvetja þau sem eru ekki með bakkalárgráðu til þess að kynna sér aðfaranámsbrautina og sækja um. Síðan mæli ég bara eindregið með þessu fyrir öll hin líka,“ segir Thelma Kristín.
 
 
mynd_3_auga.jpg

Auga, Vélprjón, 2021

 

mynd_6_sveppir.jpg

Vefnaðarskissa m. þrívíddarútsaumi, 2021

mynd_5_sveppakona.jpg

Ávextir konu, Vatnslitir, 2020

 
Þegar hún er spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að sækja um í deildinni  segir hún að það hafi gripið sig einhver þörf til þess að viðhalda þeirri þekkingu sem hún hafði fengið að kynnast, þá sérstaklega hvað vefnaðinn varðar.
 
„Ég er hrædd um að vefnaðurinn sé ekki að erfast kynslóð fram af kynslóð, ólíkt mörgum öðrum aðferðum sem við koma textíl, enda er vefnaðurinn að mörgu leyti flóknari og fyrirferðarmeiri, að minnsta kosti ef maður ætlar að vefa í stól. Hann býður þó upp á svo marga möguleika sem margir átta sig ekki á. Ég get ekki hugsað mér að vefnaðarkunnátta minnki enn frekar og mig langaði til þess að leggja mitt af mörkum í að viðhalda henni. Það var kannski helsti drifkrafturinn í þessari ákvörðun minni.
 
Það grípur mig alltaf einhver angist þegar ég heyri af þekkingu sem er að glatast eða hefur þegar gert það. Mér hefur oft verið sagt að ég sé gamaldags og að það sé ástæða fyrir því að sum þekking deyi hreinlega út, að það séu engin not fyrir hana nú á tækniöld. Það verður að hafa það. Ef að ég get horft út um gluggann og gáð til veðurs myndi ég alltaf gera það frekar en að fletta upp veðurspánni í snjallsímanum. Ef að ég get saumað mér vel sniðna flík langar mig miklu frekar að nota hana heldur en fjöldaframleitt dót sem ég verslaði á netinu. Verkþekking er eitthvað sem mér finnst þess vert að leggja áherslu á og gera hátt undir höfði. Maður verður að þekkja reglurnar til þess að vel fari ef maður ætlar sér síðan að brjóta þær.“
 
 
mynd_2_thorlaug_og_solveig.jpeg

Þórlaug og Sólveig, Vatnslitir, 2021

 
 
Lokaverkefni Themu Kristínar úr Myndlistarskólanum er henni enn ofarlega í huga en þar blandaði hún saman ást sinni á íslensku flórunni, vatnslitun og vefnaði.
 
„Ég valdi mér íslenskar jurtir, málaði þær og litgreindi. Síðan handlitaði ég ull og silki í þeim litum sem ég hafði fundið og hannaði litamunstur í einskeftuvefnað. Að lokum óf ég stykkin og setti fram fyrir lokasýningu skólans. Þetta var allt sprottið út frá hugmyndum um heimili og hvernig munir, húsgögn og textílar, litir þeirra og áferð, hafa áhrif á rými. Ég var á sama tíma að velta mikið fyrir mér einhvers konar þrívíddar-útsaum, og gerði ýmsar tilraunir með það að sauma út og hekla þrívíð blóm sem ég mótaði með vír og festi ýmist á húsgögn eins og má sjá í myndum af lokaverkefninu (ef vel er að gáð) eða á striga. Síðan vann ég mikið með það að túlka vatnslitamálverkin mín með textílum.
 
mynd_13_vorperla_i_ferli.jpg

Mynd 13: Vorperla í ferli fyrir lokaverkefni, Heimakær

mynd_14_dyragras_i_ferli.jpg

Mynd 14: Dýragras í ferli fyrir lokaverkefni, Heimakær

mynd_17_uppsetning_a_lokasyningu.jpg

Heimakær, Vatnslitir, Ullarlitun, Vefnaður og þrívíddarútsaumur, 2022. Ljósmyndari: Vigfús Birgisson

 

 

mynd_10_hofsoley_naermynd.jpg

Nærmynd, Hófsóley, Vatnslitir 2021

 

mynd_9_geldingahnappur_i_ferli.jpg

Geldingahnappur í ferli, Ull og vír á bómullarstriga, 2021

 
mynd_11_heimakaer_valin_flora.jpgHeimakær, Valin flóra í vatnslitum, 2022. Ljósmyndari: Vigfús Birgisson
Strax og Thelma Kristín útskrifaðist frá Myndlistaskólanum fékk hún tækifæri til þess að kenna vefnað við skólann og gerði það samhliða náminu í listkennsludeildinni.
 
„Þá kenndi ég sama kúrs og ég var tiltölulega nýbúin að taka sjálf. Það var ótrúlega gefandi tækifæri og mér þótti einstaklega skemmtilegt að fá að leiðbeina nemendum við verkefni sín. Þessi reynsla styrkti mig enn frekar í náminu.
 
Thelma Kristín segir að hugur sinn hafi opnast gersamlega þegar hún hóf nám við listkennsludeild.
 
„Ég fór inn í þetta með einhverjar hugmyndir um framhaldið og þær umturnuðust einhvern vegin, en til hins betra. Í náminu fær maður að kynnast mjög fjölbreyttum hópi nemenda sem allir hafa sína eigin reynslu og hugmyndir um hvaða aðferðir má fara til þess að hvetja yngri kynslóðir til dáða. Listgreinar og bakgrunnur nemenda blandast í einhverjum suðupotti sem ilmar eins og jólin.
 
Námið sjálft er mjög opið og skapandi og kennararnir hvetja nemendur til þess að vinna verkefnin út frá eigin reynslu og áhuga. Verkefnin eru eins og tækifæri til þess að kafa ofan í sjálfan sig, skoða hvað þar leynist og komast að því hvernig hægt væri að nýta það til þess að toga eitthvað jákvætt fram í öðrum.“
 
Thelmu Kristínu finnst vel líklegt að hún komi til með að fara út á vinnumarkað og nýta kennsluréttindin að náminu loknu.
 
„Hins vegar má segja að ég sé þegar farin að nýta námið, þó það sé ekki nema hálfnað, í flestu því sem ég geri. Hér er maður ekki bara að læra hvernig á að vera kennari, heldur fær maður tækifæri til þess að kynnast rannsóknarvinnu, ýmis konar hugsjónum, heimspeki, ólíkum listgreinum og síðast en ekki síst sjálfum sér. Þetta litar allt út frá sér og kemur án efa til með að nýtast með fjölbreyttum hætti, en ekki bara í kennslu,“ segir Thelma Kristín sem er spennt fyrir framtíðinni.
 
„Ég ætla mér að halda áfram að svala þessari óseðjandi þörf fyrir því að láta eitthvað verða til í höndunum á mér. Ég var að kaupa mér vefstól svo ég vona að mér gefist einhver tími til þess að kynnast honum og gera að vini mínum. Námið er bara hálfnað svo hinn helmingurinn liggur framundan. Framtíðin er óskrifað blað. Ég hef oft reynt að gera mér upp einhverjar áætlanir um framtíðina en á síðan frekar erfitt með að fylgja þeim eftir. Í staðinn segi ég bara að ég hafi aldrei verið mikill „planari“ og leyfi lífinu bara að koma til mín, það hefur reynst mér vel hingað til og ég vona það haldi áfram að gera það. Svo lengi sem maður heldur áfram og gerir eitthvað þá stendur maður að minnsta kost ekki í stað.“
 
 
profill.jpg