Helga Ágústsdóttir er nemandi í kennslufræðum við listkennsludeild LHÍ.
 
Helga nam í Danmörku en hún lærði margmiðlunarfræði í Óðinsvéum og tók BA próf í stafrænni markaðsfræði hjá KEA í Kaupmannahöfn. Hún er einnig tækniteiknari að mennt.
 
Helga var að kenna í Stóru-Vogaskóla í Vogum á Vatnsleysuströnd áður en hún sótti um í listkennsludeild LHÍ og hefur hún haldið áfram að kenna með náminu.
 
„Ég fann þar hvað það er gefandi að kenna. Ég var með umsjónarbekk og kenndi heimilisfræði og ákvörðunin sækja um í Listaháskólanum var tekin útfrá mínu starfi sem list- og verkgreinakennari,“ segir Helga en hún hafði heyrt af kennsluréttindanáminu og leist vel á.
 
„Ein vinkona mín útskrifaðist úr listkennsludeild og sagði þetta vera nám sem breytir manni í betri manneskju og það er nefnilega alveg rétt,“ segir Helga og bætir við: „Námið hefur breytt mér sem manneskju því að kennslan í LHÍ er þannig að allir fá að vera eins og þeir eru með kostum og göllum. Allir mega taka pláss og verkefnin þannig að það á að koma frá hverjum og einum og þeirra upplifunum. Hugarfarið er svo fordómalaust og fær mann til að rýna í eigin rann.“
 
fjollan.jpg

Helga og fjölskyldan: Tvíburarnir Anna Hulda og Friðrik Steinarr, eldri synirnir Mikael Árni og Finnur Valdimar og eiginmaður hennar Friðrik.

Helga ákvað að útskrifast frá listkennsludeild án þess að skrifa lokaverkefni og taka þess í stað fleiri námskeið við deildina. Hún útskrifast því með MT gráðu (e. Master of Teaching). MT námsleiðin innifelur meistaragráðu og kennsluréttindi; nemendur sem velja þá leið útskrifast með sömu réttindi og aðrir nemendur sem útskrifast frá deildinni.
 
„Ég ákvað að taka MT leiðina því ég er að kenna með námi og finnst svo dásamleg námskeiðin í LHÍ að ég tímdi ekki að eyða heilli önn í að skrifa og missa af námskeiðum. Ég er í 100% vinnu með náminu, það hefur verið mjög gefandi að vera í námi samhliða vinnu því þá hef ég getað nýtt það sem ég er að vinna að og læra í LHÍ í minni kennslu.“
 
 
vidah.jpg
Helga, Friðrik og Anna Hulda.
 
Námið í listkennsludeild hefur nýst Helgu vel í starfi og sér hún fyrir sér að það muni nýtast enn betur að útskrift lokinni en hún heldur áfram að kenna í Stóru-Vogaskóla.
 
„Ég verð meðvitaðri kennari í þeirri meiningu að ég geri mér grein fyrir að nemendur þurfa kennara sem hlusta og eru sveigjanlegir, hugsa í lausnum. Ég hlakka til að útskrifast en á sama tíma er ég döpur við tilhugsunina að ég verð ekki í námi næstu önn. Allir kennararnir sem hafa kennt mér hafa haft áhrif á mig sem kennara og manneskju. Samtalið við samnemendur um verkefnin og víkkað mina sýn á önnur sjónarmið,“ segir Helga.
 
„Það getur meira en vel verið að ég reyni að finna námskeið sem ég get tekið í Opna Listaháskólanum til að halda mér við efnið, því þetta er frábært líka fyrir endurmenntun sem er nauðsynlegt fyrir kennara til að tileinka sér nýjar hugmyndir og fá hugmyndir að kennsluefni.“
 
eg.jpg