What do you want to find?
Unnur Björnsdóttir
UNESCO hefur kallað eftir því að umhverfismenntun verði hluti af kjarna aðalnámskrár í öllum löndum fyrir 2025, þá á sérstaklega að gefa líffræðilegum fjölbreytileika og loftslagsmálum meira vægi.
Rannsóknin er þarfagreining á umhverfismenntun þar sem sérstaklega er skoðað birtingamynd umhverfismenntunar og lýðræðis í aðalnámskrám og menntastefnum, ásamt því að greina umræður sem áttu sér stað á landsfundi Ungra umhverfissinna í kynningar- og fræðslumálum.
Á Íslandi hefur umhverfismenntun, og síðar sjálfbærnismenntun, verið hluti af aðalnámskrám frá 1989, en aldrei orðið sér faggrein. Þrátt fyrir að áfangi tileinkaður umhverfismenntun hafi aldrei komist á almennilegt flug hefur hugmyndafræðin, svo sem sjálfbærni, náttúruvernd og náttúrutengingar, haft áhrif á öðrum stöðum innan aðalnámskráa – þá sérstaklega í náttúrufræði, en líka þvert á allt skólastarf.
Í öllum námskrám frá 1989 hefur verið lagt upp með að tengjast náttúrunni, hugsa í stærra samhengi, beita sér fyrir sjálfbærni eða lífstílsbreytingum í þágu náttúru, en það vantar frekari skilgreiningu á hvaða hugmyndir efla og hindra sjálfbærni ásamt því að rækta tengsl fólks og náttúru þannig það upplifi sig hluta af náttúrunni, og átti sig betur á hvernig mismunandi hugmyndakerfi geta bæði orsakað og bætt úr slæmri stöðu umhverfismála í dag.
Í því samhengi er frumbyggjaþekking og pósthúmanísk nálgun á náttúru, þar sem borin er virðing fyrir öðru lífi og náttúrufyrirbærum, sérstaklega gagnlegur grunnur umhverfismenntunar – en til þess að umhverfismenntun verði hluti af skólastarfi, verður fyrst og fremst að eiga samráð við skólasamfélagið, og þá sérstaklega samráð við nemendur.

Reynsla Finna, hefur sýnt að hlutdeild skólasamfélagsins í gerð námskrár hefur mikið að segja til um framfylgni hennar. Því er mikilvægt að virkja nemendur, foreldra, kennara og annað starfs- og fræðafólk skólamála, til þess að umhverfismenntun og aðalnámskrá sem heild fái eftirfylgni. Í öllum aðalnámskrám hingað til hefur aldrei átt sér stað samráð við nemendur við gerð þeirra.
Niðurstöður þemagreiningu úr landsfundi Ungra umhverfissinna um kynningar- og fræðslumál kalla eftir meiri umhverfismenntun í skólum og nærsamfélagi þeirra. Þar sem náttúrunni og fjölbreytileika fólks er gefið meira vægi í skólum og samfélaginu almennt. Þá var sérstaklega kallað eftir meira útinámi í skólum, þar sem lögð er áhersla á náttúruskynjun og farsæld nemenda.
Af kennsluaðferðum á útinám og listkennsla vel við umhverfismenntun.
Framlag rannsóknarinnar nýtist til frekari rannsókna, samvinnu og samráðs um hlutverk umhverfismenntunar. Fyrst og fremst er rannsóknin hvatning til stjórnvalda að eiga almennilegt samráð við skólasamfélagið (þá sérstaklega nemendur) um hlutverk umhverfismenntunar við endurskoðun aðalnámskrár, sem er þegar byrjuð og tekur líklega gildi í ágúst 2025.

mynd_6.jpg, by julianakristin