Leitin að týnda tónskáldinu.

Hvaða tækifæri felast í því að nota tónlist með mannkostamenntun að leiðarljósi?

 

Í þessu verkefni var mannkostamenntun skoðuð og þungamiðjan var athugun á því hvernig væri hægt að nota tónlist sem tæki til að efla dyggð eins og til dæmis samkennd á sviði mannkostamenntunar. 

Nemendur í 9.-10. bekk tóku þátt í 6 smiðjum sem voru aðlagaðar að venjulegri stundaskrá í grunnskóla og snérist fyrri helmingur smiðjunnar um meðvitund og skilning á ýmsum siðferðilegum dygðum. Nemendur fengu að skoða mannkosti eins og samkennd, hugrekki, þakklæti og heiðarleika, en þeir fengu einnig tækifæri til að kynna uppáhalds manneskjuna í þeirra lífi til þess að sýna þeim að þeir hafa nú þegar hugmyndir um það hvað einkennir góða manneskju.

 

Seinni hluti smiðjunnar snérist svo um ráðgátuleik sem kallast Leitin að týnda tónskáldinu. Í þessum leik var lögð áhersla á samkennd og eiginleikann að geta sett sig í spor annarra. Í þessum leik fengu nemendur að stíga inn í heim ímyndunaraflsins með aðstoð tónlistar og í leiknum fá þeir hlutverk sérfræðinga eða spæjara sem eiga að leysa ráðgátuna um týnda tónskáldið og þeir fá tvær vísbendingar áður en leitin og hlustunin hefst. 

 

Með þessari smiðju var tilgangurinn að efla skilning nemenda á mannkostum og þróa skapandi og lifandi nálgun til þess að eiga þetta samtal. Með því að skilja mannkosti og mikilvægi þeirra fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild þá öðlast nemendur mikilvægt veganesti sem gæti reynst þeim vel á lífsleiðinni og á tímum sem einkennast af hraða og tækninýjungum. Samtalið um dygðirnar er einnig samtal um tilfinningar og rannsóknir sýna að það er áríðandi að leyfa börnum að túlka og tjá það sem býr innra með þeim. Þannig geta dygðirnar verið eins og akkeri í reginhafi tilfinninganna – veganesti sem getur eflt sjálfsþekkingu barna og hjálpað þeim að tækla þær ólíku áskoranir sem geta komið upp í tilverunni.

 

Alls tóku 88 nemendur í þremur grunnskólum þátt í smiðjunum og var afraksturinn 127 sögur bæði skrifaðar og teiknaðar. 

 

Niðurstöður þessa rannsóknaverkefnis voru að nemendur áttu auðvelt með að setja sig í spor týnda tónskáldsins og tjá sig í gegnum ímyndunaraflið. Tónlistin örvaði þá til að tjá sína upplifun og sjónarhornin voru margs konar.