Sigurvegarar Ungra einleikara 2023 eru önnum kafin þessa dagana við undirbúning stóru stundarinnar en einleikararnir fjórir stíga á svið og flytja einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu næstkomandi fimmtudag kl.19:30. 

Ungir einleikarar er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Sinfóníunnar og á sér langa sögu en keppnin hefur verið haldin árlega í rúma tvo áratugi. Að þessu sinni eru það þrír söngvarar og einn víóluleikari sem þóttu hlutskörpust en það eru þau Ólafur Freyr Birkisson, Ragnheiður Ingunn Jóhannesdóttir, Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir og Þórhildur Magnúsdóttir. Nathanael Iselin mun stjórna hljómsveitinni.  

Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting ríki í aðdraganda tónleikanna enda stemningin á tónleikunum sjálfum engri lík. Að sögn sigurvegaranna er þetta einstakt tækifæri sem hefur efalaust jákvæð áhrif á næstu skref þeirra ferils.  
 
Miðasala er í fullum gangi og áhugasamir geta tryggt sér miða á vef Hörpu og í miðasölu.