Kæru gestir, safnstjóri Listasafns íslands og samstarfsmenn - en fyrst og fremst kæru útskriftarnemar! 

Listin er flókið fyrirbrigði, sem felur í sér óendanlega mörg tilbrigði við tilvistina. Stærsta gjöf hennar til okkar felst í því frelsi sem hún felur í sér. Frelsinu til að fara ótroðnar slóðir, til að ögra, upphefja, mótmæla, vera íhugul, djúp - jafnvel yfirboðskennd - svo fremi sem það þjóni markmiðum tjáningarinnar, skapi nýtt samhengi, hugsun eða tilfinningu. 

Listin leggur okkur einnig mikla ábyrð á herðar; hún krefst þess að við greinum umhverfi og samhengi, tökum afstöðu, afhjúpum þversagnir eða samræmi, fegurð og ranglæti, þjóðfélagið jafn sem innra líf - hún spannar allar athafnir og litróf mennskunnar.  

 

II 

Hér á þessari útskriftarsýningu sýna arkitektúrnemar fram á hæfni sína til að takast á við framtíðina innan þess ramma sem vistkerfi jarðar leyfa. Þeir tvinna hið manngerða saman við náttúruna, við samfélagið og persónulega upplifun; við það sem fyrir er og það sem koma skal.  

Hönnunarnemar glíma við sögu, hefðir, tækni og framsetningu, bæði í efni og umgjörð alls þess sem við njótum og nýtum í hversdagsleikanum. Þau ferli sem þau hafa tileinkað sér hafa alla burði til að móta huga okkar og umhverfi, jafnframt því að þjóna þörfum okkar og draumum.  

Fatahönnunarnemar vinna inn í skilyrta framtíð - framtíð þar sem útsjónasemi, nýtni og nýsköpun eru undirstaða hugmyndaauðgi og sjálfstjáningar.  

En burt séð frá því hvaða farveg nemendur okkar hafa kosið sér á sviði hönnunar og arkitektúrs, þá eiga þau eitt sameiginlegt. Þau eru að kljást við hugmyndaheim úreltra gilda, sem ekki hæfa þeirri heimsmynd og því ástandi jarðar sem blasir við okkur í síauknum mæli. Glíma þeirra - góð og ígrunduð hönnunarhugsun - þarf að umbylta heiminum og endurmennta samfélagið. Því hún afhjúpar samspil náttúru og efnisvals, framleiðsluferla og hráefnisnýtingar; samhengi neyslu okkar og umhverfisáhrifa.  

Myndlistanemarnir á þessari sýningu eru á áþekkum slóðum. Það er allt undir; sagan, "kvikuhólf merkingarinnar", "leifar fortíðarinnar", "rauður þráður eigin sannfæringar" og viljinn til að "byggja, viðhalda og laga" - svo vísað sé í brot úr þeirra eigin textum í sýningarskránni - sem liggur hér frammi. Verk þeirra afhjúpa vel þá staðreynd, að þegar vel tekst til í listum þjóna þær okkur sem ómetanlegur lykill að mannlegum reynsluheimi.  

 

III 

Á þessum hátíðlega degi verða einskonar skil gagnvart umheiminum; við opnum út og bjóðum öllum inn. Hitinn og þunginn af öllum þessum verkum færist frá listamanninum yfir á viðtakandann - á þann sem kemur og nýtur. Hér eru útskriftarnemar ekki einungis að fanga auga okkar og tilfinningar, heldur einnig afstöðu okkar og skynjun sem gesta. 

Jafnframt er leið okkar í gegnum sýninguna vörðuð persónulegum reynsluheimi hvers og eins nemanda, hugmyndum þeirra og aðferðum. Við greinum sterkan vilja til að láta skapandi ferli framkalla og móta hughrif sem hefja okkur yfir hversdagsleikann og okkar daglega amstur. Það er einstaklega uppörvandi að verða vitni að svo fjölbreyttum áherslum og þessu rausnarlegu sjónarhorni.  

Í dag finnum við því sérstaklega vel fyrir þeirri staðreynd að meginhlutverk Listaháskólans er að kanna með hvaða hætti við getum samþætt akademískar hefðir þeim kröftum sem knýja listirnar áfram. Það er því engin tilviljun að heiti þessarar sýningar vísar til rafalsins; aflstöðvarinnar sem leysir úr læðingi þá orku sem umbyltir hverjum tíma; þróar hann og þroskar.  

 

IV 

Að lokum langar mig til að þakka Listasafni Reykjavíkur og safnstjóra þess fyrir samstarfið um þessa útskriftarsýningu, eina ferðina enn. Það er gott að eiga safnið að sem faglegan vettvang á þessum skilum á milli námsferils og starfsferils.  

Útskriftarnemum færi ég einlægar hamingjuóskir á mildum vordegi - sem í rigningunni gefur okkur öllum gott fyrirheit um gróandann framundan.